„Hæstv. forseti. Síðastliðinn mánudag var á dagskrá þingfundar 3. umr. og atkvæðagreiðsla um frumvarp um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, um notkun fánans í markaðssetningu vöru og þjónustu.
Þá bar svo við að málið var tekið af dagskrá og sem framsögumaður málsins ætla ég að útskýra stuttlega hvers vegna.
Samtök iðnaðarins hafa eðlilega látið sig málið varða og við vinnslu málsins hjá nefndinni sendu samtökin inn ágætisumsögn um málið og fylgdu þeirri umsögn eftir með gagnlegum ábendingum. Fulltrúar samtakanna höfðu svo samband á ögurstundu fyrir 3. umr. á Alþingi og höfðu athugasemdir og hugmyndir um útfærslu og breytingar á málinu.
Sú ákvörðun var tekin að bregðast við og gefa Samtökum iðnaðarins færi á að fylgja þessari útfærslu eftir og upplýsa nefndina frekar um hugmyndir sínar og því var málið tekið af dagskrá.
Samtök iðnaðarins komu svo fyrir nefndina í gærmorgun og fóru yfir málið og útskýrðu sjónarmið sín og breytingartillögur fyrir nefndinni. Minnisblað þess efnis liggur þegar fyrir á vef Alþingis um málið og þar geta áhugasamir kynnt sér tillögurnar. Í stuttu máli snúa þær að því að þar sem fáninn er í eðli sínu upprunamerking er mikilvægt að tryggja frekar að neytendur geti gengið að því sem vísu að upplýsingar um uppruna séu skýrar, eins og þegar fáninn er notaður í markaðssetningu á vöru og þjónustu verði stuðst við fyrirliggjandi upprunareglur samnings Evrópska efnahagssvæðisins, bókun 4.
Í öllu falli var hratt brugðist við og þykir mér full ástæða til að þakka hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hæstv. forseta fyrir skjót viðbrögð. Það er von mín að málið tefjist ekki fram úr hófi og að þessi snúningur verði til bóta.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 3. febrúar 2016.
Categories
Fánamálið kallað til nefndar
10/02/2016
Fánamálið kallað til nefndar