Categories
Fréttir

Flugöryggi á Akureyri

Deila grein

10/02/2016

Flugöryggi á Akureyri

thingmadur-hoskuldur„Virðulegi forseti. Í morgun í umhverfis- og samgöngunefnd var haldinn fundur sem bar yfirskriftina Flugöryggi á Akureyri.
Þannig er mál með vexti að Isavia hefur tekið ákvarðanir um að fækka flugumferðarstjórum og taka upp hina svokölluðu AFIS-þjónustu sem ég skil ekki öðruvísi en svo að þar verði einstaklingar sem eru með minna nám á bakinu og mun minni reynslu og hafa ekki heimild til þess að stýra hinum mjög svo mikilvæga radar sem er nauðsynlegur út af legu Akureyrarflugvallar.
Í rauninni er þetta skrýtið í því ljósi að stjórnvöld hafa lýst yfir miklum áhuga á að styrkja millilandaflug til Akureyrar og hafið aðgerðir í þá áttina. Við horfum upp á það núna, sem er gleðiefni, að efni sem kemur til úr Vaðlaheiðargöngum er sett til þess að undirbúa byggingu nýs flughlaðs. Þess vegna veltir maður fyrir sér í hvaða átt Isavia sé í rauninni að fara.
Fram komu fullyrðingar um að þetta væri eingöngu tímabundin aðgerð sem væri nauðsynleg út af manneklu, en þegar áhöld eru um að gerður verði nýr þjónustusamningur þar sem Isavia mun leggja til að AFIS-þjónusta geti viðgengist þá hefur maður á tilfinningunni að svo verði ekki.
Ég vil beina því til innanríkisráðuneytis og allra þeirra sem málið varða að tryggja að áfram verði sama þjónusta og verið hefur á Akureyrarflugvelli frá árinu 1960. Það skiptir gríðarlegu máli að þjónustan sé ekki bara sú sama heldur líka öryggið. Við höfum (Forseti hringir.) heyrt sömu vangaveltur áður. Þeim var hafnað út af öryggissjónarmiðum. Ég vona að svo verði líka núna og Isavia hverfi frá þessum hugmyndum hið snarasta.“
Höskuldur Þór Þórhallsson í störfum þingsins 3. febrúar 2016.