Categories
Fréttir

Breytingar á jöklum sé augljósasta birtingarform á loftslagsbreytingum

Deila grein

10/02/2016

Breytingar á jöklum sé augljósasta birtingarform á loftslagsbreytingum

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt og ástæða til að vekja máls á því að umræðan í þingsal í síðustu viku einkenndist að miklu leyti af umfjöllun um umhverfismál. Þau mál taka yfir vítt svið og snerta okkur öll.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru einn mesti vandi sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda er hætta á stórfelldri röskun á lífríki jarðar og lífsskilyrðum komandi kynslóða. Vandinn verður mestur í framtíðinni eftir tugi ára en krefst aðgerða nú. Verkefnið kallar á fjárfestingar og nýsköpun sem styður við umhverfisvæna tækni. Með því að leggja fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sýnir ríkisstjórnin vilja sinn í verki.
Hæstv. forseti. Íslensk stjórnvöld hafa nú í fyrsta skipti ráðstafað fjármagni sérstaklega til heildstæðrar áætlunar um aðgerðir í loftslagsmálum. Á fjárlögum 2016 fara til dæmis rúmlega 30 milljónir til Vatnajökulsþjóðgarðs og Veðurstofunnar til að forma verkefni, bæta vöktun og setja upp lifandi kennslustofur um loftslagsbreytingar sem gefa almenningi kost á að sjá áhrif þeirra á jökla landsins.
Segja má að breytingar á jöklum sé augljósasta birtingarform á loftslagsbreytingum en óvíða í Evrópu er aðgengi að jöklum eins gott og hér á landi. Vel mætti hugsa sér að ferðamenn hefðu áhuga á að sjá slíkar breytingar og upplifa hve mikið jöklar hafa bráðnað hér á landi síðastliðin ár. Á auðveldan hátt gætum við gefið fólki kost á að sjá niðurstöður úr vöktun jökla á áhrifaríkan hátt, við Vatnajökul, Snæfellsjökul og ef til vill Drangajökul, sem sýnir breytileikann. Þar með væri kominn vísir að aðdráttarafli fyrir ferðamenn, vísindamenn og fleiri sem stuðlar að dreifingu ferðamannastraums og styrkingar byggðar.
Hæstv. forseti. Með skynsamlegri nálgun getum við samþætt ferðamennsku og rannsóknir með áherslu á aukna umhverfisvitund.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 3. febrúar 2016.