Categories
Fréttir

Mikilvægt er að horfa á heildarsamhengi húsnæðismála

Deila grein

10/02/2016

Mikilvægt er að horfa á heildarsamhengi húsnæðismála

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Mig langar að byrja ræðu mína á að þakka hv. þingmönnum, þeim Elínu Hirst og Þorsteini Sæmundssyni, fyrir góðar ræður hér gær í störfum þingsins. Ég verð að segja að ég er hjartanlega sammála því sem þau höfðu fram að færa.
En nú kem ég að því sem ég ætla að fjalla um, þ.e. heildarsamningi húsnæðismála. Samkvæmt nýrri Hagsjá Landsbankans kemur fram að tvöfalt fleiri voru að kaupa fyrstu íbúð á árinu 2015 samanborið við árið 2008. Á árinu 2008 voru fyrstu kaup innan við 10% allra viðskipta með fasteignir á landinu öllu. Árið 2015 voru rúmlega 22% allra viðskipta fyrstu kaup eða um 2.600 íbúðir af um 11.700 íbúðaveltu.
Jákvætt er að sjá að svo virðist sem unga fólkið eigi auðveldara með að kaupa sér húsnæði nú en áður. Samt sem áður er mikilvægt að endurskoðun á skilyrðum greiðslumats eigi sér stað. Nauðsynlegt er að horft sé til skilvísi einstaklinga. Það er ekki hægt að horfa lengur upp á þá sem borga himinháa leigu komast ekki í gegnum greiðslumat þrátt fyrir að greiðslubyrðin mundi lækka um tugi þúsunda.
Það er samt svo að alltaf verður einhver hluti á leigumarkaði, bæði tímabundið og ótímabundið. Þess vegna er mikilvægt að frumvörp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er varða nauðsynlegar húsnæðisumbætur á leigumarkaði nái fram að ganga.
Flestar gestakomur vegna málanna er lokið í hv. velferðarnefnd þingsins og þar hefur vinnan gengið vonum framar. Á næstu vikum verður nefndarálit unnið og afar líklegt er að húsnæðisfrumvörpin verði að lögum innan fárra vikna.
Mikilvægt er að horfa á heildarsamhengi húsnæðismála. Þegar leigumarkaðsmálin hafa verið afgreidd þá taka verðtryggingarmálin við. Í því samhengi þarf að horfa til vaxtabyrði lána og greiðslubyrði fólks af húsnæðislánum. Festa þarf í sessi hvata til húsnæðissparnaðar, t.d. í formi séreignarsparnaðar, og eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni þarf að endurskoða þau úrræði sem sett eru fram með greiðslumatið.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 3. febrúar 2016.