Categories
Fréttir

Kominn á ofboðslegt vaxtamunarfyllirí

Deila grein

10/02/2016

Kominn á ofboðslegt vaxtamunarfyllirí

24671716596_29475601b0„Hæstv. forseti. Eitt af því sem einkenndi fjármálakerfið á Íslandi fyrir hrun var að þá var í gangi hávaxtastefna líkt og nú og inn streymdi erlent áhættufé. Nú er svo að í næsta mánuði stendur til að Seðlabankinn bjóði upp 200 milljarða af slíku fé til að losa um svokallaða snjóhengju. Maður hefði ætlað það að þessir atburðir, þ.e. það sem gerðist hér í aðdraganda hrunsins og nauðsynlegar ráðstafanir vegna þess núna, hefðu kennt Seðlabankanum eitthvað. En það kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur um innflæði gjaldeyris í fyrra að hingað hafi streymt fjármagn til kaupa á ríkisskuldabréfum upp á 54 milljarða kr. Og það á að fara að losa um 200 í næsta mánuði.
Í svarinu segir einnig að þetta innflæði einskorðist við fé sem kemur inn í landið eftir svokallaðri nýfjárfestingarleið Seðlabankans. Þetta þýðir að Seðlabankinn er að bjóða áhættufjárfestum aftur ekki einungis að koma hér í vaxtahimin heldur fá þeir 20% fleiri krónur fyrir þann gjaldeyri sem þeir koma hér með inn.
Seðlabankastjóri hefur sagt að innflæði fjármagns sé svolítið eins og áfengisáhrif, það sé mjög gott í hófi, en mér sýnist Seðlabankinn vera dottinn herfilega í það og ég held að hann sé kominn á ofboðslegt vaxtamunarfyllirí.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 3. febrúar 2016.