Categories
Greinar

Af stóru málunum

Deila grein

26/02/2016

Af stóru málunum

haraldur_SRGBFyrir kosningarnar árið 2013 var ljóst að mörg stór mál biðu úrlausnar á komandi því kjörtímabili. Það er óhætt að halda því fram að stóru málin hafi verið skuldamál heimilanna, afnám hafta, húsnæðismál og verðtryggingin. Það er því góður tímapunktur núna, þegar árið 2016 er gengið í garð, að horfa yfir farinn veg og meta stöðuna. Höfum við gengið götuna til góðs? Hefur eitthvað mjakast áfram og hvað stendur eftir.

„Móðir“ allra kosningaloforða efnt

Allt frá árinu 2009 höfðum við framsóknarmenn talað um mikilvægi þess að leiðrétta stökkbreytt lán heimilanna. Leiðréttingin var unnin af fagmennsku, af sérfræðingum og tókst framkvæmd hennar frábærlega. Tveimur árum eftir kosningar höfðu heimili með verðtryggð húsnæðislán, sem var sá hópur sem hafði beðið hvað lengst eftir leiðréttingu sinna mála, fengið leiðréttingu á allri verðbólgu áranna 2008 og 2009 fyrir ofan 4% vikmörk Seðlabankans. Það er nauðsynlegt að ítreka það að  4 milljóna króna þak var á leiðréttingafjárhæð til að tryggja það að fjármagn leiðréttingarinnar dreifðist fremur á hina tekjulægri. Ekki var hugsað fyrir slíku þaki á 110% leið bankanna og síðustu ríkisstjórnar þar sem um 20 milljarðar fóru til 1% heimila í landinu, eða um 775 heimila.

Staðfesta við afnám hafta

„Hvernig getur þú talað svona með allt öðrum hætti en allir aðrir flokkar sem eru í framboði þings?“ Svona spurði Sigmar Guðmundsson, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, í þættinum Forystusætið á RÚV fyrir síðustu kosningar. Staðreyndin er einfaldlega sú að Framsóknarflokkurinn talaði einn flokka um að mögulegt væri að afnema höftin á kjörtímabilinu og af því gæti hlotist verulegur ávinningur fyrir ríkissjóð. Nú er svo komið að trúverðug áætlun um losun fjármagnshafta liggur fyrir. Ástæða fyrir trúverðuleika og góðum undirtektum kröfuhafa er augljóslega það að þeim voru gefnir upp valkostir ásamt því að réttir hvatar voru til staðar. Talað var um málflutning framsóknarmanna sem „popúlisma“. Nú er hinsvegar gert ráð fyrir að ráðstafanir slitabúanna til þess að uppfylla stöðugleikaskilyrðin nemi um 850 milljörðum og þar af nema greiðslur til stjórnvalda 5-600 milljörðum. Ekki er hægt að nefna eina ákveðna tölu þar sem framlagið er að stórum hluta í formi eigna, en ljóst er að ávinningurinn er gríðarlegur.

Heimilin, verðtryggingin og almannatryggingar

Fjögur húsnæðisfrumvörp eru nú komin til velferðarnefndar. Í þeim má meðal annars finna nauðsynlegar úrbætur í húsnæðismálum tekjulægri fjölskyldna og fjölgun félagslegs húsnæðis. Það má heldur ekki gleyma því að húsnæðisfrumvörpin spiluðu veigamikinn þátt í gerð kjarasamninga síðastliðið vor og því nauðsynlegt að þingið standi saman í því að afgreiða þau sem fyrst. Unnið er að afnámi verðtryggingar í takt við þá áætlun sem starfshópur lagði til árið 2014. Það er hins vegar alveg ljóst að sú barátta verður erfið þar sem við erum ekki einungis að kljást við pólitíkina á Alþingi heldur einnig varðhunda fjármagnseigenda.

Við erum á réttri leið og höfum unnið statt og stöðugt að því að bæta hag heimilanna á kjörtímabilinu. Að bæta hag heimilanna er ekki einhver kosningafrasi eins og heyrst svo oft frá þeim sem ekki treystu sér í þann slag á síðasta kjörtímabili. Það þurfa allir að hafa þak yfir höfuðið og eiga fyrir salti í grautinn. Kaupmáttur launa hefur aukist verulega á kjörtímabilinu. Hann er ekki bara einhver tala á blaði, heldur mælir hann raunverulega kaupgetu fólks. Það er einfaldlega staðreynd að Íslendingar fá meira fyrir launin sín í dag en nokkru sinni áður. Þann 1. janúar síðastliðinn hækkuðu bætur um 9,7%. Frítekjumark hefur hækkað og sú skerðing frá síðustu ríkisstjórn, oft verið kölluð Árna Páls skerðingin, hefur verið dregin að fullu til baka. Bætur almannatrygginga hafa hækkað töluvert meira en verðlag og þannig hefur kaupmáttur lífeyrisþega aukist. Það verður þó ekki sagt að nóg sé að gert. Því fer fjarri. Nú verðum við að halda áfram að gera vel, byggja ofan á því sem þegar hefur náðst og gera samfélagið í heild betra.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Suðra febrúar 2016.