Categories
Greinar

Börnin okkar eru til fyrirmyndar

Deila grein

26/02/2016

Börnin okkar eru til fyrirmyndar

Elsa-Lara-mynd01-vefurÖll viljum við búa í fjölskylduvænu samfélagi. Samvera fjölskyldunnar er mikilvægur þáttur í þroska og velferð barna og unglinga og því er gleðilegt að sjá hvað samverustundum hefur fjölgað síðustu 10 ár. Í nýbirtum Félagsvísum sem Velferðarráðuneytið gefur út kemur þessi afgerandi þróun í ljós. Á einungis 10 árum hefur fjöldi barna á aldrinum 14 – 15 ára, sem segjast verja tíma með foreldrum sínum oft eða nær alltaf um helgar, farið úr 37% árið 2006 og í 63% árið 2014.

Minnkandi notkun áfengis og tóbaks
Lífsvenjur barna og unglinga á Íslandi hafa tekið miklum breytingum til hins betra síðasta áratuginn. Regluleg íþróttaiðkun barna á aldrinum 14 – 15 ára hefur aukist úr 31,8% árið 2006 í 39% árið 2014 og á sama tíma hefur notkun áfengis og tóbaks dregist saman. Fyrir 10 árum sögðust 12% 15 ára barna reykja eina eða fleiri sígarettur á dag en árið 2015 var hlutfallið farið niður í 2,5%. Þróunin er þó enn jákvæðari þegar þróun á notkun áfengis er skoðuð. Á þessum sama tíma hefur notkun áfengis 15 ára unglinga farið úr 26% niður í 4,6%. Ætla má að hér séu mismunandi áhrifavaldar að verkum. Forvarnir og fræðsla hefur aukist til muna og heilbrigði og hreysti hefur blessunarlega komist í tísku, ef svo má segja. Aukin samvera fjölskyldunnar er einnig stór þáttur í breyttu lífsmynstri og hafa breytingar á vinnumarkaði, t.a.m. sveigjanlegir vinnutímar og fjölskyldustefnur fyrirtækja, mikið að segja.

Fjölskylduvænna samfélag
Það er ekki sjálfgefið að þróunin sé með þessum þætti og við megum alls ekki sofna á verðinum. Það er mikilvægt að stjórnvöld hverju sinni leggi áherslu á að viðhalda og bæta það fjölskylduvæna samfélag sem hér hefur skapast. Heildarvinnuálag hjá íslenskum fjölskyldum er meira hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum og þurfum við að gera betur í þeim efnum. Þar má nefna styttingu vinnuvikunnar og samfellu milli fæðingarorlofs og leikskóla, eins og kom fram í tillögum verkefnisstjórnar Velferðarráðuneytisins sem miða að samþættingu fjölskyldu – og atvinnulífs.

Við getum þó sannarlega glaðst yfir því hve langt við höfum náð nú þegar og það er ljóst að framtíðin er í góðum höndum hjá þessari frábæru kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 26. febrúar 2016.