„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða þá stöðu sem er teiknast upp hér í þjóðarbúskapnum samhliða jákvæðum samfélagslegum tíðindum. Kaupmáttur hefur aukist til muna og skuldir landsmanna minnkað. Á sama tíma eru að berast mjög jákvæðar fréttir sem lesa má úr Félagsvísum sem Hagstofan birtir og finna má á vef velferðarráðuneytisins; mikilvægur gagnagrunnur, upplýsingar um velferð, vellíðan, heilbrigði og þarfir, gögn fyrir bætta stefnumótun og samfélagslegar aðgerðir þar sem þörfin er mest aðkallandi.
Margt má lesa úr þessu og meðal annars þá afar jákvæðu þróun að börn og unglingar verja nú í auknum mæli tíma með foreldrum sínum og þeim fjölgar sem taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Það er besta forvarnarstarfið, virðulegi forseti, og ber að huga að og vísbendingu þessa efnis má einnig finna í minni neyslu áfengis og vímuefna. Það er mikilvægt að við verjum það mikilvæga sjálfboðastarf sem unnið er á vettvangi æskulýðs-, ungmenna- og íþróttafélaga. Þetta er þróun sem við ættum með öllum mætti að verja og styðja enn frekar.
Tekjujöfnun er æskileg, ekki bara út frá félagslegum heldur einnig út frá hagstjórnarlegum sjónarmiðum. Því eru það afar mikilvæg tíðindi, sem lesa má úr þessum Hagvísum, að jöfnuður er sannarlega að aukast og er óvíða meiri. Skuldaleiðrétting, séreignarsparnaðarleið, mildar skattalækkanir, afnám vörugjalda og ýmissa tolla, kjarasamningar og verðstöðugleiki ásamt öðrum félagslegum og hagstjórnarlegum aðgerðum hafa því stuðlað að auknum kaupmætti, auknum jöfnuði, aukinni velferð.
Nú berast tíðindi um það að við siglum hratt inn í þensluskeið og það er verkefni sem við höfum oft klúðrað. Því mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn ef okkur á að takast að halda áfram á sömu braut, horfa til jöfnuðar, kaupmáttar, stöðugleika og móta það velferðarþjóðfélag sem við viljum búa í.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 1. mars 2016.
Categories
Mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn
02/03/2016
Mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn