Categories
Fréttir

Fjármálastofnanir sýni neytendum sóma

Deila grein

02/03/2016

Fjármálastofnanir sýni neytendum sóma

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Þessa dagana heyrum við fréttir af gríðarlegum hagnaði viðskiptabankanna þriggja. Samanlagt tóku þeir inn 80 milljarða króna hagnað á síðasta ári og er hagnaður þeirra þriggja frá hruni 370 milljarðar. Þessi hagnaður kemur á sama tíma og þessir sömu viðskiptabankar hafa verið að bæta við þjónustugjöldum og í mörgum tilfellum að hækka þau þjónustugjöld sem fyrir voru. Má þar meðal annars nefna úttektargjald, hraðbankagjald, svargjald bankaþjónustu, greiðslugjald, kortagjald og svona er hægt að telja áfram. Þessir gjaldaliðir eru um 30 talsins og hv. þm. Framsóknarflokksins Karl Garðarsson gerir ágætlega grein fyrir þeim í færslu á Eyjunni. Í færslu hans kemur jafnframt fram að fólki blöskri og það sé búið að fá nóg. Það er ekki annað hægt en að taka heils hugar undir þau orð hans þegar kemur að þessum þáttum í bankakerfinu. Við þurfum að skapa nýtt og heiðarlegra bankakerfi.
Herra forseti. Hér þarf að aðgreina á milli fjárfestingar- og viðskiptabanka. Hér þarf að afnema verðtryggingu og taka um leið á því vaxtaumhverfi sem við búum við. Í því samhengi gæti líka verið afar gagnlegt að líta til hugmynda hv. þm. Frosta Sigurjónssonar um breytt peningakerfi. Á meðan sú vinna er í gangi eiga forsvarsmenn þessara fjármálastofnana að sýna sóma sinn í því að leyfa neytendum landsins að finna fyrir þeim gríðarlega hagnaði sem fjármálastofnanirnar hafa náð. Það ættu þeir að geta gert með því að kalla til baka þær hækkanir sem orðið hafa á þjónustugjöldum eða fækka þeim þjónustuliðum sem rukkað er fyrir og að lækka vexti. Það gæti orðið gríðarleg kjarabót fyrir heimili landsins.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 1. mars 2016.