Uppgjöri á losunarheimildum fyrir fyrsta viðskiptatímabil Kýótó-bókunarinnar, sem gilti fyrir árin 2008– 2012 er nú lokið. Ísland stóð við skuldbindingar sínar á tímabilinu og hefur skrifstofa Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna nú staðfest það.
Samkvæmt bókuninni skuldbundu um 40 þróuð ríki sig til þess að halda útstreymi sex gróðurhúsalofttegunda á árunum 2008-2012 innan losunarheimilda, sem voru samtals 5% lægri en losun þessara ríkja var árið 1990. Ísland fékk þó svigrúm til aukinnar losunar eða 10%.
Að auki samdi Ísland um sérákvæði, ákvörðun 14/CP.7, en það heimilar að koldíoxíðútstreymi frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvers, sem hefur starfsemi eftir 1990 og leiðir til meira en 5% aukningar í útstreymi á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar (2008–2012), verði haldið utan við losunarheimild bókunarinnar eftir að útstreymisheimildir viðkomandi ríkis hafa verið fullnýttar.
Ísland stóð við skuldbindingar sínar, gerði upp losunarheimildir sínar og skilaði Umhverfisstofnun skýrslu þess efnis þann 18. desember 2015. Skrifstofa Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna fór yfir skýrsluna og hefur nú skilað staðfestingu á að uppgjörið hafi farið fram skv. settum reglum og að Ísland hafi staðið við skuldbindingar sínar.
Heildarlosun Íslands á tímabilinu var 23.356.071 tonn af CO2-ígildum. Gerðar voru upp 20.098.931 losunarheimildir og 3.257.140 heimildir voru tilkynntar sérstaklega undir íslenska ákvæðinu, eða 55,1% af þeim heimildum sem í boði voru vegna ákvæðisins.
Upplýsingar um uppgjör Íslands sem og annarra ríkja á heimasíðu Loftslagssamningsins.
Frekari upplýsingar um Kýótó-bókunina á heimasíðu Umhverfisstofnunar .
Categories
Ísland stóð við skuldbindingar á fyrsta tímabili Kýótó bókunarinnar
11/04/2016
Ísland stóð við skuldbindingar á fyrsta tímabili Kýótó bókunarinnar