„Hæstv. forseti. Fyrst vil ég fagna því að hefðbundin þingstörf séu hafin að nýju. Í ljósi ummæla hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér, hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, treysti ég því að það komi bara jákvæðir hlutir út úr samtali forustumanna ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar. Þeir eru að tala saman og þangað til einbeitum við okkur að því sem við erum að gera hér og erum ráðin til.
En í orrahríð atburða síðustu viku á vettvangi stjórnmálanna fór margt athyglisvert fyrir ofan garð og neðan og ég ætla að koma aðeins inn á það. Ég nefni sem dæmi ársfund Samtaka atvinnulífsins sem oft áður hefur fengið meiri athygli en þar voru haldin mörg athyglisverð erindi.
Ég vil vekja athygli á erindi prófessors Jóns Daníelssonar, prófessors í hagfræði við Lundúnarháskóla. Hagfræðingurinn kom þar inn á að hávaxtastefnan á Íslandi gæti fremur ýtt undir sveiflur en dregið úr þeim og hvatt til aukins vaxtamunar viðskipta, svona í ljósi þeirrar framvindu sem við horfum til um losun fjármagnshafta.
Hann sagði vaxtahækkanir í raun ganga gegn meginmarkmiði sínu um að slá á þenslu og virka þveröfugt og auka fremur verðbólgu og þenslu í hagkerfinu. Það er því skoðun hagfræðingsins að reyna eins og unnt er að vera sem næst vaxtastigi nágrannaþjóða okkar. Til þess að eiga við eftirspurnaraukninguna megi beita öðrum tækjum.
Ég vona, virðulegur forseti, að Seðlabankinn taki þessum athugasemdum hagfræðingsins vel og hafi til hliðsjónar nú og í samhengi aflandskrónuútboða og losunar hafta sem fram undan er.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 13. apríl 2016.
Categories
Hávaxtastefnan á Íslandi gæti fremur ýtt undir sveiflur
14/04/2016
Hávaxtastefnan á Íslandi gæti fremur ýtt undir sveiflur