Categories
Fréttir

Landsbankinn verður að endurheimta traust

Deila grein

14/04/2016

Landsbankinn verður að endurheimta traust

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Á morgun fer væntanlega fram aðalfundur Landsbanka Íslands. Mig langar aðeins til að drepa á niðurstöðu Bankasýslu ríkisins sem fram kom fyrir nokkrum vikum síðan en hefur fallið í skuggann af bæði páskahaldi og öðrum atburðum. Ég ætla að vitna hér og þar í þetta bréf, með leyfi forseta, en þar segir meðal annars:
„Í tilfelli sölunnar á Borgun telur stofnunin“ — þ.e. Bankasýslan — „hins vegar rökstuðning bankans ófullnægjandi. Þannig bendir margt til þess að bankinn hafi dregið rangar ályktanir af samskiptum sínum við Samkeppniseftirlitið varðandi mögulega fresti og svigrúm til að selja eignarhlut sinn í félaginu.“
Aðeins seinna segir:
„Telur Bankasýsla ríkisins jafnframt að Landsbankinn sem stærsta fjármálafyrirtæki landsins geti ekki borið fyrir sig grandleysi annarra kaupenda á eignarhlutum í Borgun.
Bankasýslan telur það jafnframt gagnrýnisvert að bankinn skuli hafa komið sér í þá stöðu að eini viðsemjandinn hafi verið hópur fjárfesta sem innihélt meðal annars stjórnendur Borgunar. Jafnframt verði að gera þá kröfu til bankans að viðhafa sérstaka aðgæslu við mat á rekstraráætlunum, sem gerðar eru af aðilum innan kaupendahópsins“, eins og fram kemur í svarbréfi bankans.
„Að síðustu hafa svör bankans við gagnrýni sem salan hefur hlotið ekki verið sannfærandi.“
Svo segir í lokin, með leyfi forseta:
„Mikilvægt er að Landsbankinn endurheimti traust eigenda sinna, viðskiptavina og fjárfesta sem og almennings í landinu.“
Og það segir hér:
Eftir athugun Bankasýslu ríkisins á sölumeðferð Landsbankans á eignarhlut í Borgun er það niðurstaða stofnunarinnar að sölumeðferðin hafi varpað verulegum skugga á árangur Landsbankans og að fagleg ásýnd bankans og stjórnenda hans hafi beðið hnekki. Með vísan til þess telur Bankasýsla ríkisins að bankaráð Landsbankans verði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að endurheimta það traust og þann trúverðugleika sem þessi sölumeðferð á hlutum í Borgun hefur kostað bankann.
Þetta segir það að Bankasýsla ríkisins hefur sagt A. Ég treysti því að á morgun segi þeir bankaráðsmenn sem Bankasýsla ríkisins hefur skipað Landsbankanum til stjórnar B og það verði skipt um yfirstjórn bankans.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 13. apríl 2016.