Categories
Fréttir

Fjölmörg mál sem þarf að klára

Deila grein

14/04/2016

Fjölmörg mál sem þarf að klára

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Undanfarna daga hefur verið hávær krafa um kosningar til Alþingis, um að þær eigi að fara fram strax. Þessa kröfu hefur meðal annars mátt sjá í mótmælum hér á Austurvelli undanfarna daga og í ræðu og riti hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar.
Í síðustu viku lögðu hv. þingmenn stjórnarandstöðu fram vantraust á núverandi ríkisstjórn og tillögu um þingrof. Skemmst er frá því að segja að sú tillaga var felld með miklum meiri hluta hér á Alþingi.
Nokkrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haldið því fram að við sem greiddum atkvæði gegn vantrausti og þingrofi séum heilaþvegin og kúguð. Því hefur jafnframt verið haldið fram hér í ræðustól Alþingis að hv. stjórnarliðar séu ekki að fylgja sannfæringu sinni með þessum gjörðum.
Þeir sem halda þessu fram hafa rangt fyrir sér. Það var með glöðu geði sem ég ákvað að fella þessa tillögu stjórnarandstöðunnar. Ástæðan er meðal annars sú að nú liggja fjöldamörg mál fyrir þinginu sem brýnt er að klára. Þar má nefna afnám hafta, húsnæðismálin, afnám verðtryggingar og samhliða því er mikilvægt að taka á því vaxtaumhverfi sem við búum við. Það þarf að koma fram með þingmál sem hjálpar ungu fólki að kaupa sér fasteign og festa þar með í sessi hvata til húsnæðissparnaðar og laga til regluverk í kringum þau skilyrði sem sett eru fram um greiðslumat.
Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telur það jafnframt jákvætt fyrir efnahagslífið að pólitískur óstöðugleiki síðastliðinnar viku hefði ekki sett allt í stopp. Töldu beinlínis að þingrof hefði getað haft neikvæð áhrif.
Að lokum vil ég taka undir orð hv. þm. Karls Garðarssonar samherja míns um að ríkisstjórnin standi sterk þrátt fyrir fullyrðingar um annað. 38 þingmenn greiddu atkvæði gegn vantrausti á föstudaginn. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun hafa stjórnarflokkarnir ekki einu sinni tapað fylgi þrátt fyrir umrót síðustu daga. Þetta eru staðreyndir þrátt fyrir öll stóru orðin.“
Elsa Lára Arnardóttir  í störfum þingsins 13. apríl 2016.