Categories
Greinar

Íslensk sérþekking nýtist öðrum

Deila grein

06/05/2016

Íslensk sérþekking nýtist öðrum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Ísland hefur skapað sér stöðu sem alþjóðleg miðstöð umræðu og samstarfs um jarðhitanýtingu. Þekkingin sem byggst hefur upp hérlendis nýtist nú langt utan landsteinanna og með jákvæðum áhrifum víða um heim.

Yfir 700 gestir frá um 50 löndum tóku þátt í alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu sem haldin var í Reykjavík í síðustu viku. Tilgangur ráðstefnunnar var meðal annars að greina frá reynslu Íslendinga af jarðhitanýtingu hér heima og á alþjóðavettvangi og skoða í samhengi við loftslags- og þróunarmál.

Fjölmargar þjóðir Afríku, Rómönsku Ameríku og Suðaustur-Asíu búa við mikla orkufátækt, þrátt fyrir að búa yfir miklum orkuauðlindum. Jarðhiti er vannýtt auðlind í mörgum þessara landa, sem gætu með nýtingu breytt samfélögum sínum til hins betra með jákvæðum loftlagsáhrifum. Það sama á við um fjölmargar Evrópuþjóðir, sem búa yfir jarðhita án þess að nýta hann. Með því að miðla af okkar reynslu og flytja út þekkingu sýnum við samfélagslega ábyrgð, stuðlum að sjálfbærri orkunýtingu og sköpum verðmæti.

Íslensk stjórnvöld hafa í áratugi hvatt til ábyrgrar og sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa á heimsvísu. Með því má draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og loftmengun. Markviss nýting á jarðhita þar sem slíkt er fýsilegt gæti til lengri tíma dregið úr áhrifum loftslagsbreytinga og hliðarverkunum þeirra, sem geta bæði verið heilsufarslegar og félagslegar. Til dæmis er talið að loftslagsbreytingar hafi meiri áhrif á félagslega stöðu kvenna en karla í fátækari hluta heimsins, þar sem ýmis hefðbundin kvennastörf verða erfiðari með auknum áhrifum loftlagsbreytinga. Mikilvægt er því að konur komi að stefnumótum í loftslagsmálum.

Um það leyti sem jarðhitaráðstefnan var haldin í Reykjavík höfðu fulltrúar rúmlega 170 þjóðríkja nýlega skrifað undir loftlagssamninginn sem kenndur er við París – þar með talin Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. Samhugur þjóða heims í baráttunni við loftlagsbreytingar er dýrmætur og þar skiptir framlag Íslendinga máli. Erlendir gestir jarðhitaráðstefnunnar í Reykjavík virtust sammála því, að mikilvægi Íslands á þessu sviði væri ótvírætt og útflutningur á íslenskri sérþekkingu nýttist öðrum.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 6. maí 2016.