Categories
Fréttir

Samtal stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins um nýtt vinnumarkaðslíkan

Deila grein

05/05/2016

Samtal stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins um nýtt vinnumarkaðslíkan

SIJSigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, boðaði leiðtoga stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi og forsvarsmenn ASÍ, BSRB, SA og Sambands íslenskra sveitarfélaga á fund í morgun í Ráðherrabústaðnum til að ræða samspil stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins og vinnu við þróun nýs vinnumarkaðslíkans.
Í upphafi fundarins kynnti fjármála- og efnahagsráðherra forgangsröðun ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Að því loknu voru umræður um stöðu mála á vinnumarkaði, lífeyrismál, SALEK-samstarfið og um forgangsröðun í velferðarmálum og fjármögnun þeirra. Ákveðið var að þessi hópur kynnti sér betur þróun nýs vinnumarkaðslíkans á fundi í maí með Steinar Holden, prófessor við Oslóarháskóla, sem SALEK-hópurinn hefur ráðið til að gera úttekt á íslenska kjarasamninga- og vinnumarkaðslíkaninu.
„Fundurinn var jákvæður og í góðum anda. Þetta samtal er að þróast í rétta átt. Þróun á vinnumarkaði er mjög mikilvæg fyrir efnahagslegan stöðugleika. Við þurfum að nýta sérstaklega góðar aðstæður nú til að greiða niður skuldir og tryggja stöðugleikann á sama tíma og við byggjum upp innviði og bætum velferðarkerfið. Vinnumarkaðurinn skiptir miklu máli við þessa uppbyggingu,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, að loknum fundinum.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is