Categories
Fréttir

Debat við Seðlabankastjóra

Deila grein

05/05/2016

Debat við Seðlabankastjóra

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég sat fund efnahags- og viðskiptanefndar um daginn þar sem hluti peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands kom í heimsókn með seðlabankastjóra í forgrunni.
Þeim fundi er ágætlega lýst í lítilli grein á visir.is sem heitir „Starfsviðtali klúðrað“. Þar kemur fram að seðlabankastjóri hafi verið krafinn svara á fundinum af nefndarmönnum um það hvers vegna Seðlabankinn hefur ofáætlað verðbólgu hér á landi nú í nokkur missiri, hvers vegna húsnæðiskostnaður er reiknaður inn í vísitölu hér en hvergi annars staðar í OECD-ríkjunum, hvers vegna stýrivextir hér á Íslandi eru 5,75%, eða í raun 6,5% ef marka má erlendar auglýsingar Seðlabankans, á meðan þeir eru -0,25% í Svíþjóð. Þessi lönd, Ísland og Svíþjóð, búa við svipaða verðbólguþróun, þ.e. ef hún er eins mæld, þ.e. án húsnæðiskostnaðar.
Í stuttu máli sagt var fátt um svör hjá þeim ágæta seðlabankastjóra sem við höfum, nema það að hann sagði þegar hann var spurður að því hvers vegna margir málsmetandi hagfræðingar væru ósammála peningamálastefnu Seðlabankans, af hverju þeir væru ósammála því að stýrivextir væru svona háir. Þá sagði hann: Ja, við erum bara einfaldlega ósammála þessum mönnum og viljum gjarnan taka við þá debat.
Nú vil ég hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd til þess að boða til opins fundar þar sem að málsmetandi hagfræðingar eins og Ólafur Margeirsson, Jón Daníelsson, Marinó G. Njálsson og fleiri geta verið í símaviðtali við seðlabankastjóra þannig að þeir geti tekið þetta debat í áheyrn þjóðarinnar.
Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir allan almenning og það væri kjörið tækifæri fyrir seðlabankastjóra til þess að útskýra fyrir þjóðinni það sem hann ekki getur útskýrt fyrir okkur alþingismönnum, þ.e. hvers vegna stýrivextir Seðlabankans eru með þeim hætti sem þeir eru.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 3. maí 2016.