Categories
Fréttir

Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri

Deila grein

05/05/2016

Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Það er svo uppörvandi að fylgjast með umræðunni þessa dagana vegna þess að okkur gengur vel á Íslandi. Við höfum verið heppin og fengið góð spil á hendi. En það er ekki nóg að fá góð spil, t.d. eins og vöxt ferðaþjónustunnar og makrílgöngur við landið. Það verður að spila skynsamlega úr þeim. Ég verð að segja að ríkisstjórnin hefur spilað vel úr sínum spilum. Það sést vel á öllum efnahagslegum mælikvörðum.
Í gær þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni hlustaði ég á viðtal við Henný Hinz, hagfræðing ASÍ. Hún sagði að kaupmáttur heimilanna hefði vaxið mikið og hagvöxturinn virtist byggður á traustum grunni. Alþýðusamband Íslands metur stöðuna sem svo að einkaneyslan muni aukast áfram vegna bættrar fjárhagsstöðu heimilanna. Sambandið spáir nærri 5% hagvexti í ár og 3,8% hagvexti að jafnaði næstu tvö árin. Verðbólgu er spáð lágri í ár og 6% vexti í einkaneyslu.
Við þekkjum góðæri og höfum vonandi lært eitthvað af hruninu, þ.e. að ganga hægt um gleðinnar dyr. Afar mikilvægt er nú að stjórnvöld nái því að viðhalda þeim efnahagslegum stöðugleika sem náðst hefur síðustu ár. Leiðrétting húsnæðislána hefur haft afar jákvæð áhrif á skuldastöðu heimilanna og áætlun um afnám hafta hefur verið vel tekið. Hvort tveggja hefur haft góð áhrif á þjóðarbúið. Við skulum því halda því til haga.
Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri á Íslandi en árið 2014 en þá bjó ekkert Evrópuríki við jafn mikinn tekjujöfnuð og á Íslandi samkvæmt tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Hæstv. forseti. Þó að allt gangi vel nú um stundir þá verðum við að hafa það hugfast að hlúa betur að þeim sem minna mega sín og halda áfram að byggja upp mikilvæga innviði samfélagsins, eins og heilbrigðiskerfið.
Sú áhersla endurspeglast berlega í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018–2021 en þar sjáum við um 19% hækkun á þeim liðum sem falla undir heilbrigðismál.
Við hljótum að geta samglaðst yfir þeim góðu fréttum.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 3. maí 2016.