Categories
Fréttir

Excel-glaðir embættismenn

Deila grein

05/05/2016

Excel-glaðir embættismenn

Páll„Virðulegi forseti. Í gær hófust strandveiðar í blíðskaparveðri í flestum fjórðungum og alls staðar var fullur sjór af fiski. Í morgun var hvasst á Suðurnesjum þegar smábátar héldu til veiða út í hvítfyssandi öldurnar, brenndir af þeirri staðreynd að brælur síðustu tvö vor kostuðu svæðið 200 tonna minni úthlutun á þessu ári.
Kerfið var fyrst sett upp þannig að með svæðaskiptingu væri komið í veg fyrir að þrálátar brælur á einu svæði yrðu til þess að potturinn yrði ekki veiddur á öðru svæði, en í dag er greinilega breytt áhersla. Við getum farið í excel-leik og tekið síðustu fjögur ár í stað síðustu tveggja, eins og embættismenn virðast hafa gert. Meðalafli á svæði D sem nær frá Borgarfirði að vestan og að Hornafirði að austan síðustu fjögur ár var 1.418 tonn og mest voru veidd 1.550 tonn en úthlutun á þessu ári er 1.300 tonn. Júlíafli í fyrra var 450 tonn en úthlutun á þessu ári er 195 tonn. Í ágúst í fyrra var aflinn 177 tonn en í ár er úthlutun 130 tonn. Meðalafli á bát var minnstur á svæði D árið 2015, þ.e. 171 tonn, meðan hann var um 300 tonn og upp í 400 tonn á hinum svæðunum. Meðalveiði á bát var einnig minnst á svæði D, 11,3 tonn, á meðan hún var 12,6 og upp í 15,8 tonn á öðrum svæðum.
Þrátt fyrir miklu meiri fiskigengd og 400 tonna aukningu á strandveiðipotti eru í nýrri úthlutun tekin 200 tonn á svæði D og áfram gert ráð fyrir 11,3 tonna meðalveiði á bát en 15,1 og upp í 15,8 tonn á hinum svæðunum. Svo virðist sem enn séu bláeygðir stjórnmálamenn að stimpla inn hráar tölur sem excel-glaðir embættismenn leggja á þeirra borð.“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 3. maí 2016.