Categories
Fréttir

Stöðugleiki í stýrivöxtum Seðlabankans

Deila grein

18/05/2016

Stöðugleiki í stýrivöxtum Seðlabankans

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Það ríkir öfundsvert ástand á Íslandi, finnst mörgum sem búa ekki við sama hagvöxt og við, sem ekki búa við sama litla atvinnuleysið og við, sem ekki búa við sama verðstöðugleika og við. Það er mjög athyglisvert sem fram kemur í útgáfu Seðlabankans í gær að almenningur nýtir það góða svigrúm sem hér er til að lækka skuldir sínar og til að fylgja eftir, eins og Seðlabankinn segir, með leyfi forseta, „árangursríkri skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar“.
Stöðugleikinn á Íslandi birtist líka í öðrum myndum. Hann birtist m.a. í því að sama hvað á gengur er stöðugleiki í stýrivöxtum Seðlabankans, sem eru allt of háir. Í frétt á mbl.is gaf yfirhagfræðingur Seðlabankans skýringu á því hvers vegna stýrivextir á Íslandi væru hærri en annars staðar. Hann sagði, með leyfi forseta að „verðbólguvæntingar hefðu þráfaldlega verið yfir markmiði hér á landi í gegnum tíðina“.
Það segir ekkert um nútímann. En málið er að verðbólguvæntingar á Íslandi eru helstar þær að verðbólga þarf að lækka og mun lækka m.a. vegna þess að kaupmenn hafa ekki sinnt þeirri siðferðislegu skyldu sinni að skila að fullu lækkun gjalda sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.
Hér segir líka að verðbólga hafi verið undir markmiði hér í tvö ár og að önnur iðnríki glími við allt annan vanda en Seðlabankinn. Þar sé vandamálið að reyna að ýta undir verðbólgu, eins og hér segir. Ef við berum okkur saman við Svíþjóð er hækkun á húsnæðisverði þar líklega enn meiri en hér. Þar er verðbólga með svipuðum hætti og hér, að teknu tilliti til þess að húsnæðiskostnaður er þar ekki inni, eins og víða er í OECD. Til þess að burðast við að laga þetta ástand í Svíþjóð eru menn með -0,5% stýrivexti.
Nú verð ég að spyrja enn einu sinni: Hvað kann seðlabankastjóri Íslands sem seðlabankastjóri Svíþjóðar kann ekki?“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 12.05.2016.