Categories
Fréttir

Af hverju eru vextirnir hærri hér á landi

Deila grein

18/05/2016

Af hverju eru vextirnir hærri hér á landi

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Af hverju eru vextir hér á landi miklu hærri en til dæmis annars staðar á Norðurlöndunum? Það er meðal annars vegna þess að hér er verðtryggt lánafyrirkomulag á íbúðalánum. Algengasta aðferð við árangursmat er að meta árangur út frá settum markmiðum. Ef við notum þá aðferð við mat á árangri Seðlabankans við að framfylgja peningastefnu má segja að Seðlabankanum hafi tekist vel til, náð toppárangri. Þar er meginmarkmið að halda verðlagi stöðugu og að mæld verðbólga sé alltaf undir 2,5%. Það hefur nú tekist í rúmlega tvö ár og er lengsta samfellda verðstöðugleikatímabil frá því að þessi markmiðsaðferð var tekin upp árið 2001.
Þrátt fyrir þennan markverða árangur verðstöðugleika er það staðreynd að vaxtastig hér er himinhátt í öllum samanburði. Það er sá kostnaður sem heimilin og atvinnulífið bera. Þessi árangur er heimilum og atvinnulífi of dýru verði keyptur. Það er ekki sú framtíðarsýn sem við eigum að bjóða, að við fjármögnum uppsveifluna og rembumst á móti með að viðhalda verðstöðugleika hverju sinni. Sem dæmi þá eru nafnvextir á íbúðalánum í Noregi, með sína sjálfstæðu mynt, á bilinu 1–2%. Munurinn er gríðarlegur en hann þarf ekki að vera svo mikill.
Á opnum fundi með efnahags- og viðskiptanefnd viðurkenndi seðlabankastjóri að stýrivextir bíta ekki sem skyldi hér á landi vegna þess að stór hluti húsnæðislána heimilanna er verðtryggður og tekur mið af neysluvísitölu mældri af Hagstofunni en ekki stýrivöxtum Seðlabankans. Mér finnst þetta stórmerkilegt. Það blasir við að vaxtaokrið er ekki álagning bankanna heldur verðtryggt raunvaxtagólf Seðlabankans. Þessu kerfi verður að breyta. Þessu lánafyrirkomulagi verðtryggingar og vaxta á uppreiknaðan höfuðstól verður að breyta. Kjörtímabilið er ekki búið og það er enn þá tími til að breyta þessu.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 12.05.2016.