Categories
Fréttir

20% launamunur enn til staðar á milli kynjanna

Deila grein

19/05/2016

20% launamunur enn til staðar á milli kynjanna

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Frá árinu 1976 höfum við Íslendingar talið okkur vera í forustusveit jafnréttismála en það ár samþykkti Alþingi lög um jafnrétti kvenna og karla, nr. 78/1976. Í dag eru því 40 ár síðan fyrstu lög um jafnrétti kynjanna voru samþykkt. Í ljósi þessa er áhugavert að rifja upp orð Gunnlaugs Finnssonar, fyrrum hv. þingmanns Framsóknar. Hann var þingmaður Vestfirðinga en samkvæmt núverandi kjördæmaskipan norðvesturkjördæmis. Í umræðum um jafnréttislögin vakti hann máls á þeim launamun sem var á milli kynjanna. Með leyfi forseta langar mig að vitna í ræðu hans, en hann sagði:
„Mér finnst ástæða til þess líka að vekja athygli á því að þessi aðstöðumunur kvenna og karla í atvinnulífinu er e.t.v. mestur og verstur hjá því unga fólki sem að sumri til er að vinna fyrir sínum skólakostnaði. Þar kemur að sjálfsögðu margt til. Sumt af því er hefðbundið. Það er ekki tekið tillit til þess í úthlutunarreglum lánasjóða eða annarri fyrirgreiðslu, en það mun ekki óalgengt að sumartekjur stúlkna séu rétt um það bil helmingurinn af því sem sumartekjur pilta eru.“
Virðulegur forseti. Síðan þessi orð voru sögð hefur mikið vatn runnið til sjávar og margt breyst. Lögunum hefur verið breytt fjórum sinnum og þar hefur verið unnið með nýjar áherslur, ný málefni og nýjar leiðir. Þrátt fyrir það er enn þá of mikill munur á stöðu kynjanna og talið er að það sé allt að 20% launamunur enn til staðar á milli kynjanna. Það er of mikið og við verðum að halda áfram að finna leiðir til að vinna gegn þeim mismun. Ég vona að við Íslendingar verðum þeirrar gæfu aðnjótandi að ná að jafna þennan launamun sem allra fyrst.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 18.05.2016.