Categories
Fréttir

Byggir menntakerfið og menntastefnan á öryggi en ekki sköpun

Deila grein

19/05/2016

Byggir menntakerfið og menntastefnan á öryggi en ekki sköpun

Hjálmar Bogi Hafliðason„Hæstv. forseti. Það mætti ætla að við hv. þm. Björt Ólafsdóttir hefðum sammælst um að ræða um spekilekann. Engar áhyggjur af spekilekanum? Þessi spurning var einmitt fyrirsögn í leiðara Kjarnans fyrir skömmu og ástæða til að staldra aðeins við. Hér er gott efnahagsástand, lítið atvinnuleysi og almennur uppgangur víða í samfélaginu. Þá og einmitt þá er ástæða til að meta stöðuna og setja okkur það markmið að gera enn betur. En samkvæmt tölum Hagstofunnar, eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir kom inn á, hafa tæplega 8 þús. fleiri einstaklingar, Íslendingar, flutt úr landi en til þess frá árinu 2009. Við erum fámennt samfélag og litlar breytingar hafa mikil áhrif, sérstaklega til lengri tíma. En á hátíðarstundum státum við okkur af frábærum skólum og hversu miklum fjármunum við verjum í skólakerfið sem hefur skapað okkur hagsæld. Þá veltum við því fyrir okkur: Er innstæða fyrir þessu?
Þegar uppgangur er í samfélaginu og fólk flyst úr landi er ástæða til að kanna menntun þeirra sem kjósa að flytja úr landi. Hvers vegna segi ég þetta? Getur verið að þessi uppgangur hér heima stuðli ekki að menntuðum störfum? Erum við að stuðla að ójafnvægi til lengri tíma? Því að á sama tíma fjölgar þeim sem stunda nám á háskólastigi.
Það er ekki bara kerfið sem þarf að breyta heldur þarfnast stefnan í hinu stóra samhengi endurskoðunar, þótt vissulega þurfi reglulega að endurmeta menntakerfi þjóðarinnar frá leikskóla og upp í háskóla. Menntakerfið miðar hins vegar að því að þeir sem inn í það fara verði háskólaprófessorar. Ef ekki, fara þeir að vinna.
Er menntakerfið okkar og -stefnan veikburða risi í samfélaginu? Erum við að stuðla að láglaunasamfélagi til lengri tíma þar sem ójöfnuður og misskipting eykst og láglaunastörfum fjölgar? Erum við of upptekin af því að skapa öryggi í menntakerfinu og gleymum þess vegna stefnunni? Til þess að ná fram samfélagsbreytingum er árangursríkast að breyta menntakerfinu og rétta menntastefnuna af, að stuðla að nýsköpunar- og tæknimenntun, að hefja verknám til vegs og virðingar. Spurningin sem ég ætla þá að skilja eftir á Alþingi er þessi: Byggir menntakerfið og menntastefnan á öryggi en ekki sköpun, sem leiðir til þess að það er spekileki úr samfélaginu sem ýtir þar af leiðandi undir ójöfnuð?“
Hjálmar Bogi Hafliðason í störfum þingsins 18.05.2016.