Categories
Fréttir

Fyllast ótta um starfsöryggi

Deila grein

02/09/2016

Fyllast ótta um starfsöryggi

Páll„Virðulegi forseti. Greinilegt er á umræðunni hér á Alþingi að kosningar eru í nánd. Margir þingmenn býsnast yfir því hvað útgerðin greiðir lítið til samfélagsins og hóta að hækka það svo um munar svo hægt verði að bæta í heilbrigðiskerfið eða eitthvað annað sem nauðsynlegt er að bæta. Ekki þarf annað en að skoða skipasölurnar til að sjá að kosningar eru í nánd því að sjaldan hafa fleiri litlar útgerðir verið til sölu. Ég trúi því ekki að þeir þingmenn sem á tyllidögum vilja að hér þrífist blönduð útgerð, allt frá smábátum til togara, geri sér grein fyrir því hvað neikvæð umræða um fjölskylduútgerð sægreifa, eða hvaða nöfn þeir kunna að nota, geta haft á þessa útgerðarflóru sem er þó enn við lýði, sem betur fer.
Eftir því sem við sáum fleiri óvissufræjum fyrir kosningar fjölgar þeim einyrkjum sem fyllast ótta um starfsöryggi sitt og aðkomu og selja. Hverjir kaupa? Það eru þeir stóru. Mikið hefur verið rætt undanfarið um svokallaða uppboðsleið, líkt og Færeyingar gerðu tilraun með. Hver var útkoman þar? Örfá fyrirtæki keyptu sem voru meira og minna í eigu útlendinga. Er það það sem við viljum?
Hvar endar markaðshyggja vinstri manna? Reynum að sjá fyrir okkur hver útkoman verður hér á landi. Hverjir koma til með að kaupa? Verða það litlu fjölskyldufyrirtækin, einyrkjarnir eða kannski bara stóru fyrirtækin sem eru meira og minna í eigu lífeyrissjóða og stórra fjárfesta?
Hvert er eðli markaðarins? Það er að þeir sterku kaupa. Hvað gerist hjá þeim sem ekki fær? Bíður hann með sinn bát í ár eða lengur og vonar að hann fái næst? Hver hefur efni á því? Er það einyrkinn sem hefur engar aðrar tekjur eða sá stóri sem hefur fleiri tekjuleiðir? Hvað þarf sá stóri að kaupa oft til að sá litli keppi ekki oftar um veiðiheimildir?
Tölum skýrt en ekki í blekkingum. Það er pólitísk ákvörðun ef við viljum fækka einyrkjum í útgerð og hafa fá og stór sjávarútvegsfyrirtæki sem geta vafalaust greitt talsvert hærri veiðigjöld. Uppsjávarfyrirtækin hafa fengið að hagræða að vild og standa vel. Viljum við sjá þá þróun í bolfiskinum?“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.