Categories
Fréttir

Styðja og styrkja litla fjölmiðla

Deila grein

02/09/2016

Styðja og styrkja litla fjölmiðla

Karl_SRGB„Virðulegi forseti. Undanfarið hefur heyrst sú skoðun að samkeppnisstaðan á fjölmiðlamarkaði sé ójöfn, hún sé ósanngjörn og komi í veg fyrir að einkareknir fjölmiðlar sem flestir eða allir verða að reiða sig á auglýsingatekjur geti vaxið og dafnað og þar með sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Ég er sammála þessu viðhorfi. Það er þó nauðsynlegt að hafa eitt í huga. Ef við ætlum að taka RÚV út af auglýsingamarkaði eða skerða tekjur félagsins kannski um milljarð eða meira verður að svara þeirri spurningu hvort og þá hvernig bæta eigi félaginu upp tekjumissinn. Á að auka framlög úr ríkissjóði eða draga úr þjónustu? Þetta er lykilspurning sem verður að svara. Það er ekki hægt að ákveða einhliða að breyta tekjumódeli RÚV nema ákveða framtíð þess í leiðinni.
Rekstur einkarekinna, lítilla fjölmiðla er þungur og það verður að styðja þá og styrkja. Fjölmiðlun er einn af hornsteinum lýðræðis og lýðræðislegrar umræðu í þjóðfélaginu. Það er skylda okkar að hlúa að þessum miðlum þótt ekki sé nema til að tryggja að sem flestar raddir fái að heyrast í þjóðfélagsumræðunni.
Það er hins vegar ekki sjálfgefið að sú aðgerð að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði með einu pennastriki gagnist nógu vel. Það er t.d. ekki víst að auglýsendur beini auglýsingum sínum jafnt á alla aðra miðla. Það er hætta á að þeir smæstu verði út undan.
Annar möguleiki er að hækka verðskrá RÚV á auglýsingum verulega til að gefa öðrum á þessum markaði aukið rými til athafna. Það er of lítill munur á verði auglýsinga sem leiðir til þess að auglýsendur velja oft RÚV.
Loks vil ég nefna þann möguleika að setja þak á auglýsingatekjur RÚV. Í dag nema þessar tekjur um 2,2 milljörðum á ári. Hægt væri að setja þak á þessa upphæð þannig að hún verði t.d. 1,5 milljarðar á ári og síðan gæti sú upphæð smám saman lækkað. Þá yrði að bæta félaginu upp tímabundið þennan tekjumissi. Þetta er umræða sem við verðum að taka í tengslum við framtíð Ríkisútvarpsins.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.