Landsstjórn Framsóknarflokksins kom saman miðvikudaginn 31. ágúst til að ræða ákvörðun þriggja kjördæmisþinga um boðun flokksþings í aðdraganda alþingiskosninga í samræmi við gr. 9.1. í lögum flokksins. Fyrir fundinn hafði verið óskað eftir áliti laganefndar flokksins um hvernig mætti bregðast við ákvörðun kjördæmisþinganna þriggja, þar sem engin fordæmi lágu fyrir.
Niðurstaða laganefndar var að í lögum Framsóknarflokksins væri miðstjórn einni falið það hlutverk að boða til flokksþings, hvort sem um reglulegt eða annarskonar flokksþing væri að ræða.
Þegar hefur verið boðað til haustfundar miðstjórnar á Akureyri þann 10. sept. 2016, samkvæmt ákvörðun landsstjórnar. Áður hafði landsstjórn ákveðið að leggja til við miðstjórn að haustfundurinn tæki afstöðu til þess hvort flokksþing yrði haldið á reglulegum tíma eða fyrir alþingiskosningar.
Nú þegar ákvörðun kjördæmisþinganna liggur fyrir um að boða skuli til flokksþings í aðdraganda kosninganna, samþykkti landsstjórn að leggja til við haustfund miðstjórnar þann 10. sept nk að flokksþing Framsóknarflokksins verði haldið í fyrsta lagi dagana 1. og 2. október og síðasta lagi 8. og 9. október á höfuðborgarsvæðinu í ljósi þegar boðaðra funda kjördæmissambandanna vegna forvals flokksins á framboðslista. Skrifstofunni var jafnframt falið að yfirfara dagskrá miðstjórnarfundarins í ljósi breyttra verkefna.
Á fundi landsstjórnar var jafnframt samþykkt að skipa starfshóp til undirbúnings kosningunum sem muni skila tillögum til landsstjórnar. Í starfshópnum eigi sæti formenn kjördæmissambandanna ásamt þingflokksformanni, formanni málefnanefndar og framkvæmdastjóra flokksins.
Categories
Upplýsingar frá landsstjórn
04/09/2016
Upplýsingar frá landsstjórn