Categories
Fréttir

Sigrún Magnúsdóttir ávarpar aðalfund Skógræktarfélags Íslands

Deila grein

06/09/2016

Sigrún Magnúsdóttir ávarpar aðalfund Skógræktarfélags Íslands

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði á dögunum aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var á Djúpavogi. Þá heimsótti hún fyrirtækið Skógarorku sem rekur viðarkyndistöð á Hallormsstað.
SM2Fjölmenni sótti aðalfund Skógræktarfélags Íslands um helgina sem haldinn var í Djúpavogskirkju og á hótel Framtíð. Í ávarpi sínu kynnti ráðherra m.a. nýtt verkefni varðandi aukna skógrækt á skóglausum svæðum, s.s. í Vestur-Húnavatnssýslu, sem sé fyrst og fremst sauðfjárræktarhérað. „Þetta tvennt getur vel farið saman, með góðu skipulagi. Skógar geta veitt búfé skjól og með tíð og tíma orðið gjöfult beitiland með margfalt meiri framleiðni en  núverandi gróðurfar býr yfir,“ sagði ráðherra og bætti við að hún hefði falið Skógræktinni að vinna að sérstöku átaksverkefni á þessu svæði þar sem sækja mætti þekkingu til Skjólskóga á Vestfjörðum varðandi aðferðafræði.
Í heimsókn sinni til Skógarorku ræddi Sigrún Magnúsdóttir við forsvarsmenn fyrirtækisins m.a. um rekstrarskilyrði þess, en um er að ræða nýjung í orkuframleiðslu á Íslandi, sem nýtir aukaafurðir skóga í sinni starfsemi. Hefur rekstrarumhverfi fyrirtækisins breyst síðustu misseri, m.a. vegna aukinnar ásóknar annarra fyrirtækja í trjákurl sem notað er við orkuframleiðsluna.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is