Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

06/09/2016

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi

logo-framsokn-gluggi

Stjórnmálaályktun
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi
haldið að Bifröst Borgarfirði 3. og 4. september 2016

Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar góðum árangri í mörgum stórum málum undir forystu Framsóknarflokksins. Má þar nefna aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, viðsnúning á rekstri ríkissjóðs, hvernig tekið var á kröfuhöfum hinna föllnu banka og aukin framlög til rannsókna og nýsköpunar.
Þingið fagnar því að nýverið hækkaði eitt hinna alþjóðlegu matsfyrirtækja lánshæfismat Íslands um tvo flokka sem er mikil viðurkenning á þeim árangri sem náðst hefur.
Sá árangur sem náðst hefur á kjörtímabilinu byggir undir þau fjölmörgu verkefni sem bíða úrlausnar á næsta kjörtímabili.
Betur má ef duga skal og áréttar þingið að nauðsynlegt er að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum. Þar er lögð áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi. Þingið fagnar hugmyndum um að nýta skattkerfið til jöfnunar búsetu. Þá er nauðsynlegt að samræming í ákvarðanatöku sé til staðar svo markmið byggðastefnu nái fram að ganga.
Þingið mótmælir harðlega samþjöppun og skerðingu á heilbrigðisþjónustu sem orðin er og hvetur til þess að eitt helsta kosningamál Framsóknarflokksins verði aukin heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni. Þá fagnar þingið hugmyndum um mótun heilbrigðisstefnu fyrir Ísland þar sem þarfir landsbyggðarinnar verði metnar með íbúum og útfrá landfræðilegum aðstæðum.
Kjördæmisþingið vill leggja áherslu á löggæslumál á landsbyggðinni. Skortur á fjármagni og sameining lögregluumdæma má aldrei verða til þess að íbúar á landsbyggðinni hljóti af skerta þjónustu í formi lengri útkallstíma eða manneklu.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að frumvarp um almannatryggingar nái fram að ganga. Jafnframt verða bætur almannatrygginga að hækka í samræmi við laun í landinu. Við afgreiðslu frumvarpsins þarf að leggja fram áætlun er sýnir hvernig bætur munu fylgja launaþróun.
Þingið krefst þess að stóraukið fé verði sett í samgöngur. Vegir eru hluti af innviðum landsins og óásættanlegt að ekki fáist fé til bráðnauðsynlegs viðhalds og nýframkæmda. Í kjördæminu eru þúsundir kílómetra án slitlags um leið og umferð hefur stóraukist um þessa vegi m.a. vegna aukinnar ferðamennsku.
Tryggja þarf áætlunarflug til Bíldudals, Gjögurs og Sauðárkróks með framlagi úr ríkissjóði. Jafnframt er mikilvægt að áætlunarflug til Ísafjarðar verði raunhæfur kostur til framtíðar. Áætlunarflug frá höfuðborginni til allra landshluta utan áhrifasvæðis hennar skiptir sköpum fyrir framtíðaruppbyggingu þeirra. Þá minnir þingið á mikilvægi þess að ríkissjóður komi betur til móts við sveitarfélög með framlögum til hafnarmannvirkja.
Kjördæmisþingið gagnrýnir harðlega lokun neyðarbrautarinnar. Lending á henni getur skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi, oft í erfiðum aðstæðum. Þingið krefst þess að Alþingi beiti sér fyrir framtíð neyðarbrautar og tryggi þar með áframhaldandi sjúkraflug um Reykjavíkurflugvöll.
Kjördæmisþingið fagnar því að sk. Norðvesturnefnd skilaði tillögum til atvinnuuppbyggingar og byggðarþróunar og hvetur ráðamenn til að fylgja eftir tillögum nefndarinnar og nýta þá fjármuni sem veittir voru í verkefnin. Þá bindur þingið miklar vonir við að nefnd um atvinnuuppbyggingu og byggðarþróun á Vestfjörðum skili tillögum fljótlega.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að tryggt verði aðgengi nemenda að framhaldsskólum í kjördæminu og fjármunir til að standa undir fjölda nemendaígilda til að mæta þeirri eftirspurn. Mjög mikilvægt er að styrkja stoðir menntastofnana og dreifnáms í Norðvesturkjördæmi. Þá þarf að tryggja fjárhagsstöðu, rekstrargrundvöll og framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum,   Háskólans á Bifröst og Háskólaseturs Vestfjarða auk þess að styðja öflugt starf símenntunarmiðstöðvanna. Grundvallaratriði í byggðaþróun og grunnþjónustu íbúa er aðgengi þeirra að menntastofnunum.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar því skrefi sem tekið var í ljósleiðaravæðingu landsins en leggur um leið þunga áherslu á að auknir fjármunir verði settir í verkefnið og því hraðað.
Þingið leggur áherslu á að ríkisfyrirtækin Landsnet, Orkubú Vestfjarða og Rarik sem eiga og reka allar meginflutningslínur og dreifikerfi rafmagns á Íslandi tryggi fullnægjandi flutning og afhendingaröryggi raforku um landið. Á þetta ekki hvað síst við um hina ýmsu þéttbýlisstaði á landsbyggðinni sem búa við ófullnægjandi aðstæður hvað þetta varðar sem hamlar rekstri og vaxtarmöguleikum atvinnulífs. Einnig að lokið verði við uppbyggingu á þriggja fasa rafmagni til að tryggja nýsköpun, atvinnu- og byggðarþróun í dreifðari byggðum kjördæmisins. Þingið hafnar alfarið áformum Landsvirkjunar um raforkusölu um sæstreng til annarra landa og telur hugmyndina fjarstæðukennda í ljósi þess að Landsvirkjun getur ekki útvegað nauðsynlega orku til atvinnuuppbyggingar í dag. Þingið beinir því til þingmanna flokksins að leggjast alfarið gegn hugmyndum Landsvirkjunar um sæstreng.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi hvetur til áframhaldandi uppbyggingar ferðaþjónustu í landinu. Finna verður leið til að afla aukinna tekna af ferðamönnum ekki síst til að standa undir uppbyggingu ferðamannastaða um land allt.
Þingið telur rétt að endurskoða skiptingu tekna af ferðamönnum milli ríkis og sveitafélaga þannig að sveitafélög fái tekjur til að standa að uppbyggingu ferðaþjónustunnar.
Landbúnaður er og verður hornsteinn byggðar um allt land og það menningarlandslag ber þjóðinni skylda til að vernda. Þá hvetur þingið ríkisvaldið til að efla eftirlit með innfluttum matvælum og gera reglur um upprunamerkingar skýrari en nú er. Óásættanlegt er, fyrir íslenska neytendur, að við flytjum inn búvörur frá löndum þar sem gerðar eru minni kröfur um framleiðsluaðstæður, lyfjanotkun og aðra þætti er lúta að heilbrigði afurða, en gerðar eru hér á landi.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar þeirri tæknibyltingu sem er að verða í veiðitækni, aflameðferð og fullvinnslu afurða um þessar mundir. Mikilvægt er að staðinn verði vörður um samkeppnis- og rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs á sama tíma og arður sem fæst úr greininni og sameiginlegum auðlindum landsmanna verði nýttur til uppbyggingar innviða og eflingar byggðarlaga vítt og breytt um landið. Þingið leggur jafnframt áherslu á að auðlindir landsins skulu vera í þjóðareign og gjald eigi að innheimta fyrir nýtingu auðlinda. Þingið minnir á að engin ein löggjöf hefur haft viðlíka jákvæð áhrif á umhverfið á Íslandi og lög um stjórn fiskveiða sem sett voru undir forystu Framsóknarflokksins.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi íterkar að stórauka þarf rannsóknir á sviði fiskeldis en alþjóðlegar spár segja að fiskeldi muni sjá fyrir tveimur þriðju af fiskneyslu í heiminum árið 2030. Mikilvægt er að Íslendingar taki þátt í þeirri þróun og leitist við að hámarka afrakstur og arð úr greininni á sjálfbæran hátt. Tryggja verður að opinbert rannsóknarfé renni beint til fiskeldis- og umhverfis rannsókna. Þá þarf leyfiskerfi vegna eldismála að vera gegnsætt og skýrt og gjaldtaka fyrir leyfi svipað og gerist t.d. í Noregi.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar breytingum á húsnæðislögum en leggur jafnframt áherslu á að áfram verði haldið í þá átt að tryggja að allir hafi val um búsetuform, hvort sem það er eign, leiga eða húsnæðissamvinnufélög.
Kjördæmisþingið fagnar því að frumvarp um húsnæðisbætur hafi verið samþykkt, en nú eiga nemendur í framhaldsskólum rétt á húsnæðisbótum vegna dvalar á heimavist eða nemendagörðum. Auk þess fagnar þingið því að frumvarp um almennar íbúðir hafi verið samþykkt en samkvæmt því geta ríki og sveitafélög farið í uppbyggingu á heimavistum eða nemendagörðum.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi harmar að í nýjum lögum um dómstóla er reiknað með að dómstóllinn sé eingöngu í Reykjavík. Þingið telur að dómstóllinn ætti einnig að vera utan Reykjavíkur.
Þingið telur að frumvörp um fyrstu eign og breytingar á verðtryggðum lánum lítið skref í jákvæða átt. Mikilvægt er að tekið verði af alvöru á áhrifum verðtryggingar á kjör heimila og krefst þingið þess að þingmenn flokksins geri breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi í þá veru. Þá minnir þingið á að afnám verðtrygginar af nýjum neytendalánum var eitt helsta kosningamál flokksins 2013.