Categories
Fréttir

Hvar eru þessar lækkanir?

Deila grein

07/09/2016

Hvar eru þessar lækkanir?

160218-Karl Garðarsson-02„Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að auglýsa eftir verðlækkunum á innfluttum vörum vegna styrkingar krónunnar og lækkunar á sköttum og gjöldum sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Hvar eru þessar lækkanir? Ég hef ekki séð þær nema að litlu leyti. Þannig bendir Alþýðusamband Íslands á að afnám vörugjalda á byggingarvörur, lægri virðisaukaskattur og styrking krónunnar, hafi ekki skilað sér til neytenda. Þvert á móti hefur vísitala byggingarvara hækkað þrátt fyrir að ætla mætti að vörurnar hefðu lækkað umtalsvert. Það er ekki langt síðan 1 evra var skráð á um 145 krónur. Í morgun var hún skráð á 129 krónur. Það er ekki langt síðan dollarinn stóð í rúmum 130 krónum. Í morgun var hann í um 116 krónum. Pundið hefur síðan hrunið í kjölfar Brexit. En hvar eru verðlækkanir til neytenda?
Staðreyndin er sú að skatta- og gjaldahækkanir skila sér yfirleitt fljótt og vel út í verðlagið með hækkun vöruverðs, skattalækkanir og styrking krónunnar seint og illa. Aðgerðir sem ekki síst eru ætlaðar til að styðja við heimilin í landinu gagnast fyrst og fremst þeim sem stunda innflutning og smásölu. Þannig sýndu kannanir að verðlækkanir á heimilistækjum vegna afnáms vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts á sínum tíma voru mun minni en gera mátti ráð fyrir. Skilaði afnám tolla á fatnað og skóm sér til neytenda? Nei, ekki nema að litlu leyti. Oft lækkar vöruverð tímabundið í kjölfar skattalækkana en leitar fljótt í sama horf aftur. Þetta er ekki bara spurning um viðhorf þeirra sem reka fyrirtæki, þetta er líka dæmi um lítinn og óþroskaðan markað þar sem samkeppni er lítil. Í guðs bænum höfum það hugfast að þó að excel-skjalið segi okkur að verð á vöru og þjónustu eigi að lækka er raunveruleikinn oftar en ekki allt annar.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 6. september 2016.