Categories
Fréttir

Frumvarp um forkaupsrétt sveitarfélaga

Deila grein

04/10/2016

Frumvarp um forkaupsrétt sveitarfélaga

Páll Jóhann Pálsson„Virðulegi forseti. Mig langar undir þessum lið, um störf þingsins, að vekja athygli á frumvarpi sem við, tveir framsóknarmenn, höfum lagt fram um breytingu á forkaupsrétti sveitarfélaga. Eins og segir í greinargerð er með frumvarpinu lagt til að sveitarstjórn eigi einnig forkaupsrétt samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða þegar aflahlutdeildir eru framseldar útgerð sem hefur heimilisfesti í öðru sveitarfélagi. Samkvæmt gildandi lögum á sveitarstjórn aðeins forkaupsrétt ef fiskiskip er selt og því geta aflahlutdeildir færst í hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi án þess að sveitarstjórn eigi þess kost að njóta forkaupsréttar. Það má kannski segja að full seint sé í rassinn gripið að koma með þetta frumvarp á þessum síðustu dögum þingsins en við teljum þó rétt að vekja athygli á þessu hér í von um að kannski verði drifið í þessu þjóðþrifamáli á næsta þingi.
Mörg þingmannamál liggja í nefndum og þar á meðal eitt þingmannamál sem mig langar að vekja athygli á sem ég lagði fram ásamt nokkrum öðrum þingmönnum. Það er um að sjómenn sitji við sama borð og aðrir, t.d. alþingismenn, og fái skattfrjálsa fæðispeninga rétt eins og aðrir landsmenn, eins og alþingismenn, opinberir starfsmenn, flugfreyjur og flugmenn, þegar þeir fara erlendis. Ef alþingismenn fara út í kjördæmi fá þeir dagpeninga og þeir fá dagpeninga ef þeir fara til útlanda. Mér þykir miður að það mál liggi í nefnd og verði ekki afgreitt þaðan.“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 4. október 2016.