Categories
Fréttir

Upplagt að endurskoða vísitöluna

Deila grein

05/10/2016

Upplagt að endurskoða vísitöluna

elsa-lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Hagstofan hefur vanreiknað vísitölu neysluverðs í hálft ár. Ástæðan er sú að í útreikningum Hagstofunnar var reiknuð húsaleiga vanmetin. Í 12 mánaða útreikningum Hagstofunnar, áður en mistökin komu fram, var verðbólga mæld 0,9% þar sem stuðst er við vísitölu neysluverðs. En ef reiknað væri út frá samræmdri vísitölu neysluverðs, líkt og gert er í OECD-ríkjunum, hefði verðbólgan verið -0,9%. Ástæðan er sú að í samræmdri vísitölu neysluverðs er húsnæðisliðurinn ekki inni. Þar er hann hugsaður sem fjárfesting en ekki neysla líkt og hér á landi. Í nýjum tölum Hagstofunnar mælist verðbólga síðustu 12 mánaða 1,8%, ef stuðst er við vísitölu neysluverðs, en 0,4%, ef reiknað væri út frá samræmdri vísitölu neysluverðs. Þarna er um gríðarlegan mun á útreikningum að ræða og birtast þessi áhrif m.a. á verðtryggðum fjárskuldbindingum heimila í landinu. Vegna þessara mistaka er upplagt að endurskoða þau viðmið sem við reiknum vísitöluna út frá. Því þarf að minnast á þingsályktunartillögu mína sem ekki hefur komist á dagskrá þingsins og hljómar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs (SVN) í stað vísitölu neysluverðs (VNV). Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti.“

Við framsóknarmenn viljum koma þessu máli á dagskrá fyrir þinglok og við trúum ekki öðru en að aðrir flokkar séu okkur sammála. Það tekur enga stund að koma þessu máli í ferli. Hér er um afar hógværa tillögu að ræða en hún getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir heimili landsins.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 5. október 2016.