Categories
Fréttir

Engar fréttir úr Seðlabanka

Deila grein

05/10/2016

Engar fréttir úr Seðlabanka

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Hæstv. forseti. Þeim fjölgar óðum sem koma fram og gagnrýna þá hávaxtastefnu sem rekin er á Íslandi. Samkvæmt fréttum sem bárust úr Seðlabankanum í morgun er ekkert að frétta þaðan. Þar er sami kjarkurinn og framsýnin, núll. Mig langar að vekja athygli á því sem einn af mikilvægustu mönnum í íslensku viðskiptalífi, Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sagði um vaxtastefnu Seðlabankans á fundi sem var haldinn á Hilton nýlega. Með leyfi forseta, sagði forstjórinn:
„Mér finnst það gjörsamlega út í hött að við séum að horfa á þetta háa vaxtastig. Horfum á allt aðra stöðu í nágrannalöndum sem við erum að berjast við. Ég tel að Seðlabankinn hafi gert afdrifarík mistök á undanförnum mánuðum.“
Hann sagði svo seinna í ræðu sinni:
„Ég er ekki svartsýnn fyrir hönd míns félags en mér finnst styrking á gengi krónunnar og vaxtastefnan galin. Punktur.“
Maður tekur eftir þegar menn af þessum kalíber stíga fram og taka til máls með þessum hætti. Það er því ekki að ófyrirsynju að sá sem hér stendur hefur farið fram á sérstaka umræðu um vaxtakjör á Íslandi við hæstv. fjármálaráðherra þar sem m.a. yrði farið yfir stýrivextina eins og þeir eru reiknaðir á Íslandi, hvernig vísitalan er reiknuð hér á landi, sem er öðruvísi en alls staðar annars staðar. Ég held að mjög mikilvægt sé að slík umræða sé tekin nú í aðdraganda kosninga vegna þess að alla vega er það stefna okkar framsóknarmanna að taka til í fjármálakerfinu. Ég held að nauðsynlegt sé að sú umræða komist á dagskrá áður en þingi lýkur, sé innlegg inn í þá baráttu.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 5. október 2016.