Categories
Greinar

Stefnan tekin í Norðaustur

Deila grein

15/10/2016

Stefnan tekin í Norðaustur

sigmundurEftir flokksþing Framsóknarmanna og atburði sem því tengdust lýsti ég því yfir að ég myndi helga mig málefnum Norðausturkjördæmis og því að kjördæmið fengi notið þeirra tækifæra sem þar liggja. Það er enda hagur landsins alls að Norðausturkjördæmi gangi vel.

Eins og flestum má vera ljóst gramdist mér mjög að menn skyldu taka þá ákvörðun að flýta kosningum og hætta við að leggja fram fjárlög. Mér mislíkaði þetta af mörgum ástæðum. Ein var sú að ég hafði vikið úr embætti forsætisráðherra um tíma, á meðan mál væru að skýrast, einmitt svo að ríkisstjórnin gæti komist hjá slíkum útspilum. Þess í stað gæti hún þá einbeitt sér að því að klára þau verkefni sem út af stóðu. Önnur ástæða er sú að með þessum ákvörðunum varð lítið úr þeirri sókn sem ég hafði boðað í byggðamálum enda þótt tekist hefði að skapa þær efnahagslegu aðstæður sem voru forsenda slíkrar sóknar.

Allt er til reiðu
Aðalatriðið er þó það að grunnurinn hefur verið lagður. Með blöndu hefðbundinna en oft erfiðra aðgerða í ríkisrekstrinum og óhefðbundinna aðgerða sem hvergi höfðu verið reyndar áður tókst að gjörbylta stöðu og framtíðarhorfum ríkissjóðs til hins betra. Það er því allt til reiðu svo ráðast megi í þær aðgerðir sem taldar verða upp hér að neðan. Það þarf að gera bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum.

Veiðigjöldunum skilað
Engin ríkisstjórn hefur skilað jafnmiklum veiðigjöldum í ríkiskassann og stjórnin sem starfaði frá 2013-2016. Það er nauðsynlegt að þessi gjöld og önnur auðlindagjöld sem kunna að vera lögð á skili sér aftur í byggðir landsins. Núverandi fyrirkomulag er í raun nánast hreinn landsbyggðarskattur. Tugir milljarða eru teknir út úr samfélögum hringinn í kringum landið. Þessu þarf að breyta.

Þriðjungur veiðigjaldanna ætti að renna til sveitarfélaganna utan höfuðborgarsvæðisins, þriðjungur í þróunarverkefni hringinn í kringum landið, einkum nýsköpun á sviði atvinnumála og þriðjungur í sérstök sóknarverkefni sem gera byggðir landsins að eftirsóknarverðari stöðum til að búa, starfa og fjárfesta. Það á t.d. við um menningarmál og fegrun byggða m.a. í gegnum verkefnið »verndarsvæði í byggð«.

Dreifing ferðamanna um landið
Sú áætlun sem lýst er að ofan mun gera byggðir landsins, ekki hvað síst hina fögru bæi og náttúru Norðausturkjördæmis, að enn eftirsóknarverðari ferðamannastöðum. En til viðbótar þarf sértækar aðgerðir til að dreifa ferðamönnum betur um landið og nýta þar með betur þá auðlind sem í landinu liggur.

Bæta þarf samgöngumannvirki, t.d. með malbikun Dettifossvegar til að klára »demantshringinn« sem yrði gríðarlega sterk söluvara í ferðaþjónustu.

Flugþróunarsjóðurinn sem forsætisráðuneytið vann að því að koma á fyrr á kjörtímabilinu skiptir sköpum við að opna nýjar fluggáttir til landsins á Akureyri og Egilsstöðum. En meira þarf að koma til. Bæta þarf aðstöðu á flugvöllunum (fjárfesting í Keflavík nemur tugum milljarða) og jöfnun flutningskostnaðar á eldsneyti er nauðsynleg til að gera þessa flugvelli betur samkeppnishæfa við Keflavíkurvöll.

Sátt virðist hægt að ná um hækkun komugjalda. Rétt er að a.m.k. hluti þeirrar gjaldheimtu renni til sveitarfélaga. Á sama tíma og við hækkum komugjöld í Keflavík mætti halda komugjöldum á Akureyri og Egilsstöðum umtalsvert lægri til að skapa aukinn hvata fyrir flugfélög að nýta þá flugvelli.

Tekjustofnar sveitarfélaga
Sveitarfélög bera að miklu leyti hitann og þungann af fjölgun ferðamanna. Þau hafa ekki fengið auknar tekjur til samræmis við það. Að hluta til koma endurheimtur auðlindagjalda til móts við þann vanda en einnig þarf að færa sveitarfélögum auknar beinar tekjur af vaxandi ferðaþjónustu. Þar þarf þó að huga að því að megnið af kostnaðinum við innviðauppbyggingu fellur til utan Reykjavíkur en megnið af tekjunum, t.d. gistináttagjöld, eru lögð á í borginni. Þess vegna þurfa komugjöld að renna til sveitarfélaganna svo að þau geti staðið straum af nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Hlutdeild í fjármagnstekjuskatti er líka eðlileg krafa í ljósi þess hversu mikið hallar á sveitarfélögin hvað varðar tekjuskiptingu.

Skattalegir hvatar
Lengi hefur verið rætt um að æskilegt gæti verið að veita skattalegar ívilnanir til fólks og fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins. Í því sambandi hefur m.a. verið litið til Noregs. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að innleiða slíka stefnu. Í henni felst að tryggingargjald verður lægra því fjær sem reksturinn er frá Reykjavík en einnig búsetustyrkir, þ.m.t. ferðastyrkir til þeirra sem þurfa að ferðast langa vegalengd til og frá vinnu. Einnig er ástæða til að líta til fyrirmynda í Noregi varðandi endurgreiðslu námslána þar sem fólk sem starfar utan höfuðborgarsvæðisins fær sérstaka niðurfærslu námslána.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. október 2016.