Categories
Fréttir

Við erum í stóru málunum

Deila grein

06/06/2017

Við erum í stóru málunum

Þingflokkur Framsóknarmanna hefur verið mjög iðinn það sem af er. Það má í raun segja að við höfum haldið áfram frá þeim tíma sem við sátum og fórum fyrir ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili – við erum í stóru málunum. Málum sem skipta landsmenn miklu máli, hvort sem litið er til mála sem snerta einstaklinginn beint eða óbeint, t.d. salan á ARION banka og salan á landi ríkisins á Vífilsstöðum.
Hér má sjá megnið af þeim málum sem komið hafa frá þingflokknum.

Þingsályktanir, sérstakar umræður og annað sem snertir heimilin, ríkið og neytendur:

Við höfum lagt fram með þingsályktun um að Landsvirkjun verði að fullu og öllu leyti í eigu ríkisins.
Ein stærsta og gjöfulasta auðlind íslensku þjóðarinnar eru fallvötn hennar og sú orka sem úr þeim má vinna. Þótt nýting auðlindarinnar hafi á köflum verið umdeild er það hafið yfir vafa virkjanir á vegum Landsvirkjunar hafa skilað og munu skila eiganda sínum háum fjárhæðum.
Við höfum lagt fram þingsályktun um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga.
Með þingsályktun þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sem kanni möguleikann á skiptingu útsvarstekna milli tveggja sveitarfélaga. Nokkuð er um að einstaklingar eigi frístundahús eða jörð, án þess að þar sé stundaður búskapur, í öðru sveitarfélagi en lögheimili er. Útsvarstekjur einstaklings renna til þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili og þar með renna engar útsvarstekjur til sveitarfélagsins þar sem frístundahús eða jörð viðkomandi er staðsett.
Við höfum lagt fram þingsályktun um vexti og gengi krónunnar.
Flutningsmenn telja það mikilvægt að skýrt og greinilega verði gerð grein fyrir sambandi stýrivaxta Seðlabanka Íslands og vaxtastigs ríkisskuldabréfa í íslenskri krónu. Vaxtakostnaður ríkissjóðs sem hlutfall af heildartekjum hans er hár í alþjóðlegum samanburði og því vert að skilja til hlítar allar hugsanlegar ástæður þess.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um nýtingu forkaupsréttar vegna sölunnar á Arion banka.
Með samþykki kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja á svokölluðum stöðugleikaskilyrðum féllust þau á að afhenda íslenska ríkinu eignir sem væru nægjanlega miklar til að það gerði stjórnvöldum kleift að aflétta fjármagnshöftum án þess að stefna greiðslujöfnuði í voða.
Við höfum lagt fram þingsályktun um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.
Umræða um flutning stofnunarinnar í hentugt og rúmgott húsnæði á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem rekið yrði af Landhelgisgæslu Íslands, sbr. samning frá 30. júlí 2014 milli utanríkisráðherra og innanríkisráðherra um að ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæsla Íslands annist tiltekin verkefni samkvæmt varnarmálalögum nr. 34/2008, hefur staðið um nokkurra missera skeið.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.
Með tillögu þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Þróun síðustu ár hefur verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð og það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.
Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga voru margir á þeirri skoðun að bæta þyrfti heilbrigðiskerfið á Íslandi og voru Framsóknarmenn þeirra á meðal. Sérstaklega var rætt um mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fjármagn til málaflokksins, eins og gert var á síðasta kjörtímabili undir stjórn Framsóknarflokksins.
Við höfum lagt fram þingsályktun um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs.
Hér á landi Hefur verið stuðst við vísitölu neysluverðs (VNV) sem mælikvarða á verðbólgu og til útreiknings á verðtryggingu síðan árið 1995. Í Evrópusambandsríkjunum er hins vegar stuðst við svokallaða samræmda vísitölu neysluverðs (SVN) en tilgangur hennar er m.a. að tryggja samræmda verðbólgumælingu í þeim ríkjum þar sem evra er gjaldmiðill.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um skattaafslátt vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.
Fyrir liggur að í danska skattkerfinu fá allir afslátt ef þeir þurfa að ferðast tiltekna vegalengd vegna vinnu óháð því hvort ferðast er á bifreið, hjóli eða með almenningssamgöngum. Mat flutningsmanna er að það að láta skattafsláttinn ná til fleiri samgöngumáta en bifreiða sé til þess fallið að hvetja fólk til að kynna sér nýja samgöngumáta, auk þess sem það getur skapað þrýsting á byggðarkjarna að koma upp góðum og öflugum almenningssamgöngum milli sveitarfélaga.
Við höfum lagt fram þingsályktun um opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.
Með þingsályktun þessari er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra falið að beita sér fyrir því að NA/SV-flugbraut Reykjavíkurflugvallar (06/24), sem einnig hefur verið kölluð neyðarbrautin, verði opnuð á ný en henni var lokað í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 9. júní 2016 í máli íslenska ríkisins gegn Reykjavíkurborg (mál nr. 268/2016).
Við höfum lagt fram frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof (fæðingarhjálp).
Nokkrum hópi fólks stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingarhjálp í heimabyggð og þarf því að dveljast fjarri heimili sínu fyrir fæðingu til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp þegar að fæðingu kemur.
Við höfum lagt fram þingsályktun um fjarfundi á vegum ráðuneyta og notkun fjarfundabúnaðar.
Á 145. löggjafarþingi voru lagðar fram átta fyrirspurnir til ráðherra þáverandi ríkisstjórnar (693.–700. mál) sem vörðuðu fundahöld ráðuneytanna með starfsmönnum sínum og undirstofnana sem eru á landsbyggðinni, notkun fjarfundabúnaðar á slíkum fundum, tæknilega þjálfun starfsmanna á slíkan búnað og fleiri tengd atriði. Af svörum við fyrirspurnunum má ráða að sinn er siður í hverju ráðuneyti þegar kemur að fjarfundum og notkun búnaðar til slíkra funda.
Við höfum lagt fram þingsályktun um styttingu biðlista á kvennadeildum.
Upplýsingar eru um að um 300 konur bíði eftir því að komast í aðgerð á kvennadeild Landspítala og biðtíminn geti verið allt að þrjú ár. Aðgerðirnar sem hér um ræðir eru einkum vegna blöðrusigs, ristilsigs, legsigs og þvagleka.
Við höfum lagt fram þingsályktun um endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.
Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði falið að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.
Við höfum lagt fram þingsályktun um auðlindir og auðlindagjöld.
Í tillögu þessari er lagt til að forsætisráðherra feli starfshópi að kanna hvort innheimta skuli afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá af hvaða auðlindum. Einnig er lagt til að starfshópurinn leggi fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds og geri grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða. Þá verði teknar saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku sé háttað í nágrannaríkjunum, einkum á Norðurlöndunum.
Við höfum lagt fram þingsályktun um samstarf Íslands og Bretlands samhliða úrsagnarferli Bretlands úr Evrópusambandinu.
Þessi tillaga skýrir sig sjálf.
Við höfum lagt fram þingsályktun um rétt barna til að vita um uppruna sinn.
Með henni er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að undirbúa lagabreytingu sem tryggir að börn sem getin eru með tæknifrjóvgun og gjafaeggi og/eða gjafasæði eigi rétt á upplýsingum um uppruna sinn.
Við höfum lagt fram þingsályktun um mótun klasastefnu.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan skuli fela í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir.
Við höfum lagt fram frumvarp um málefni aldraðra (akstursþjónusta).
Aldraðir skulu eiga kost á akstursþjónustu á vegum sveitarfélags sem miðar að því að þeir geti farið allra sinna ferða á þann hátt sem þeir kjósa og á þeim tíma sem þeir velja gegn viðráðanlegu gjaldi.
Við höfum lagt fram frumvarp um atvinnuleysistryggingar (bótaréttur fanga).
Nú hefur maður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. setið í gæsluvarðhaldi, eða afplánað refsivist og stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun til samræmis við lög um fullnustu refsinga, og skal hann þá teljast tryggður samkvæmt lögum þessum eins og hann hefði verið í launaðri vinnu á sama tímabili, enda uppfylli hann önnur skilyrði til þess að teljast tryggður samkvæmt lögum þessum.
Við höfum lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (fánatími).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna til að rýmka þann tíma sem fáninn má vera við hún og auka þannig almenna notkun hans. Lagt er til að efnisákvæði um fánatíma færist í lögin og reglugerð ráðherra lúti því einungis að fánadögum.
Við höfum lagt fram frumvarp um brottnám líffæra (ætlað samþykki).
Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á 2. gr. laganna að miðað verði við „ætlað samþykki“, þ.e. gert verði ráð fyrir að hinn látni hefði verið samþykkur brottnámi líffæris eða lífræns efnis að sér látnum nema tilefni sé til að ætla annað.
Við höfum átt frumkvæði af sérstökum umræðum um:

  • matvælaöryggi og matvælaframleiðslu.
  • greiðsluþátttöku sjúklinga.
  • stöðuna í ferðamálum – leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.
  • áherslur í skipulagi haf og standsvæða.
  • matvælaframleiðslu og loftslagsmál.
  • söluna/gjöfina á Vífilsstöðum.

Annað

Við höfum lagt áherslu á stofnun stöðugleikasjóðs til að bregðast við sveiflum í íslensku hagkerfi.
Við höfum talað fyrir komugjöldum og verið er að vinna að nánar útlistun á gjaldtöku ferðamanna.
 
Þórunn Egilsdóttir,
þingflokksformaður Framsóknarmanna