Categories
Forsíðuborði Greinar

Framsæknar lausnir

Deila grein

08/10/2017

Framsæknar lausnir

Vandi sauðfjárbænda er tvíþættur.

Annarsvegar sterk samningsstaða stórra verslunaraðila sem stýra verðinu til bænda sem verður til þess að afurðaverð er undir framleiðslukostnaði með tilheyrandi tekju og launaskerðingu til bænda.

Hinsvegar ytri vandi vegna efnahagsástands í Evrópu, þróunar gengis, lokun markaðar í Noregi og Rússlandi og seinkun á að fríverslunarsamningur við Kína taki gildi.

Hver taldi rangt eða sagði ósatt?

Í ljós kom að birgðasöfnun var minni en af var látið sem rennir stoðum undir þann grun að stórir verslunaraðilar stýra verðinu.

Þannig hefur það verið frá 2015 og hefur þróast á verri veg. Í flestum löndum er annað hvort framleiðslustýring, sem var fyrir löngu afnumin hér, eða sveiflujöfnunarverkfæri.

Hér á landi er hvorugt og það bætti ekki úr skák að núverandi ríkisstjórn var, af pólitískum ástæðum, ekki tilbúin að leysa málin á skynsaman hátt.

Það er ógn við sjálfstæði bænda að þeir eru ekki tengdir markaðnum m.a. af því ekkert gagnsæi er í afurðastöðvageiranum.

Það skal því engan undra að meðal bænda ríkir vantraust í garð afurðastöðvanna. Það er ekki gott fyrir neinn í framleiðslukeðjunni og þarf að laga hið snarasta.

Lausnirnar verða að snúa að þessu tvennu. Fyrstu þrjár aðgerðirnar snúa að skammtímavandanum. Tvær þær síðustu að leysa verkefnið til framtíðar.

1. Auka þarf stuðning í ár við bændur til að koma til móts við launaskerðinguna. Þær 650 milljónir sem ríkisstjórnin var þó tilbúin til að setja fram eiga að fara í það að draga úr tekjuhruninu. Tillögur aukaaðalfundar Landssambands sauðfjárbænda eru góðar og skynsamar og ber að fara eftir.

2. Byggðastofnun þarf að koma að málinu með afborganaskjóli, lengingu í lánum og öðrum þeim aðgerðum sem fleyta skuldsettum bændum yfir hjallann.

3. Halda þarf áfram með útflutningsverkefnið sem skilaði útflutningi á yfir 800 tonnum á þessu ári. Til þess þarf 100 milljónir.

4. Taka þarf upp sveiflujöfnunartæki. Útfærslu á útflutningsskyldu, sem virkar í báðar áttir. Þ.e. gæti tryggt nægjanlegt framboð á innanlandsmarkaði þegar markaðstækifæri erlendis vaxa á ný.

5. Auka gagnsæið með því að heimila afurðastöðvum að starfa saman á erlendum mörkuðum. Svipað og þegar sjávarútvegsfyrirtækin byggðu upp sterka stöðu íslensks gæða fisks með samstarfi fyrir nokkrum áratugum. Vilji bændur fara þá leið að eiga sjálfir slíkt fyrirtæki getur það einnig verið góð leið.
Með þessum framsæknu lausnum mun sauðfjárræktin ná sér á strik á ný. Halda áfram að vera undirstaða byggðar í dreifbýlasta hluta landsins og um leið skila hágæðavöru á borð neytandans á verði sem allir geta verið ánægðir með.

Þau verkefni sem bændur hafa sett af stað á undanförnum árum í kjölfar nýrra búvörusamninga um aukið virði sauðfjárafurða eru að skila sér. Höfum biðlund fyrir því. Markaðsstarf tekur tíma, en skammtímavandinn er auðleystur strax.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.