Categories
Forsíðuborði Greinar

Áramótakveðja formanns

Deila grein

28/12/2017

Áramótakveðja formanns

Kæru vinir og félagar!

Nú er árið að renna sitt skeið og vart ofmælt að það hafi verið viðburðarríkt. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók við í ársbyrjun eftir langar og strangar viðræður, formlegar og óformlegar, milli allra flokka. Staðan var flókin. Öll þekkjum við framhaldið, kosið var á ný í október 2017. Að þeim loknum töluðum við Framsóknarmenn fyrir mikilvægi þess að mynda sterka stjórn með breiða skírskotun frá hægri til vinstri um miðjuna. Enda varð ekki annað lesið úr skilaboðum kjósenda, en að spurn væri eftir slíkri stjórn. Og svo virðist sem kannanir staðfesti þetta mat okkar.

Í aðdraganda stjórnarmyndunar unnum við af heilindum og komum hreint fram í öllum samskiptum. Samtöl voru góð og uppbyggileg og skýrðu stöðuna og verkefnið vel, sem fram undan var. Markmið allra flokka er að búa þannig um hnúta að hér á landi verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna. Auðvitað er það svo að ólíkir flokkar hafa ólíka sýn á það hvernig nálgast skuli verkefnið. En þrátt fyrir það, er það frumskylda stjórnmálamanna að koma til móts við óskir kjósenda og axla ábyrgð á stjórn landsins, öllum til heilla. Í þriggja flokka samstarfi þarf að gefa eftir og sammælast um lausnir. Það var gert við myndun nýrrar stjórnar, en ég held að okkur hafi tekist að halda gildum Framsóknarflokksins vel til haga.

Saman og sameinuð
Framsóknarflokkurinn er ekki einn maður, hann samanstendur ekki bara af kjörnum fulltrúum. Nei, kæru félagar, við erum öll Framsóknarflokkurinn. Í gegnum 101 árs sögu höfum við sýnt styrk, kjark og þor í umróti tímans; þetta hefur sameinað okkur, hert okkur og í mínum huga leikur enginn vafi á því að hlutverk Framsóknarflokksins í framförum og farsæld þjóðarinnar er enn veigamikið. Ég hef sagt það áður og segi enn að baráttan fyrir félagslegu jafnrétti, þar sem manngildi er sett ofar auðgildi, lýkur aldrei.

Við göngum bjartsýn og sameinuð til móts við árið 2018. Þingflokkurinn mun í upphafi nýs árs fara í fundarferð um landið. Ég hlakka til að hitta ykkur sem flest. Framundan eru sveitarstjórnarkosningar og undirbúningur þeirra er hafinn. Markmiðið er að byggja á þeim góða árangri sem við höfum náð á undanförnum mánuðum og árum, bæði inn á við og út á við, og vinna sigur í komandi sveitarstjórnarkosningum. „Getum við ekki öll verið sammála um það?“

Kæru vinir
Um leið og ég þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið og samveruna á liðnu ári óska ég þér og þínum gleðilegs nýs árs með von um að það verði árangurs- og gleðiríkt. Sannkallað Framsóknarár.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins