Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins verið afkastamikil á yfirstandandi þingi og lagt fram sjö mál, tveir þingsályktunartillögur og fimm lagafrumvörp. Tvö lagafrumvörp eru þegar komin til meðferðar hjá Velferðarnefnd Alþingis en hin bíða þess að komast á dagskrá þingsins. Suðurnesjablaðinu lék forvitni á að vita um hvað mál Silju Daggar fjalla.
Fæðingarþjónusta og jafnræði
Lagafrumvörpin sem eru komin til velferðarnefndar hafa fengið ágæta umræðu í fjölmiðlum. Hið fyrra snýr að breytingum á fæðingarorlofslögum, þ.e. að þeir foreldrar sem búa langt frá fæðingastað fá viðbót við sitt fæðingarorlof í samræmi við þann tíma sem fólk þarf að vera fjarri heimili sínu og bíða fæðingar. Íbúar á Suðurnesjum lenda almennt ekki í þessari stöðu en það gera íbúar t.d. í Vestamannaeyjum og í Höfn. „Fljótlega eftir að ég byrjaði á þingi áttaði ég mig á þeirri mismunun sem íbúar fjarri fæðingarstöðum búa við. Ég fékk því gott fólk í lið með mér, heilbrigðisstarfsfólk í Höfn og í Vestamannaeyjum, til að aðstoða mig við gerð frumvarpsins. Málið grundvallast á búsetujafnræði sem og rétti barna til að hafa jafnlangan tíma með foreldrum sínum í fæðingarorlofi,“ segir Silja Dögg um tilurð málsins.
Ætlað samþykki við líffæragjöf
Hitt frumvarpið fjallar um breytingar á lögum um líffæragjöf. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að heiladauðir einstaklingar vilji ekki gefa líffæri sín (ætluð neitun), en með frumvarpinu er gert ráð fyrir „ætluðu samþykki“, þ.e. að gengið sé út frá því að mögulegir líffæragjafar, vilji gefa líffæri sín. Sá varnagli er þó sleginn að nánustu aðstandendur geti neita líffæragjöf, en rannsóknir sýna að aðstandendur ganga ekki gegn vilja hins látna, sé vilji hans þekktur. Markmið lagabreytingarinnar er að fjölga líffæragjöfum á Íslandi, en þörf er á því í ljósi þess að þjóðin er að eldast og vaxandi þörf fyrir líffæri í framtíðinni. „Þetta frumvarp á sér langa sögu en ég flyt það nú í fimmta sinn. Siv Friðleifsdóttir þingmaður flutti það tvisvar þar á undan. Ég vona því að málið sé orðið nægilega þroskað og fáist samþykkt á yfirstandandi þingi. Mér finnst eðlilegra að lög geri ráð fyrir að við viljum koma náunga í neyð til hjálpar, heldur en ekki,“ segir Silja Dögg.
Bætur fyrir börn sem misst hafa foreldri
Síðustu daga hafa tvö frumvörp til viðbótar vakið mikla athygli í fjölmiðlum, þ.e. frumvarp um breytingar á lögum um barnalífeyri og bann við umskurði drengja.
„Frumvarpið um barnalífeyrinn á sér langa sögu en ég dreif mig ekki af stað fyrr en nú í haust við að skrifa það. Barnalífeyri fá þeir sem misst hafa maka sinn og hafa fyrir börnum að sjá en hann er jafnhár og meðlag, rúmlega 31 þús. kr. á mánuði með hverju barni. Í lögum um meðlag er einnig gert ráð fyrir að fólk geti farið fram á aukagreiðslur vegna kostnaðarsamra viðburða og aðgerða, svo sem ferminga og tannréttinga. En þeir sem fá barnalífeyri eiga ekki rétt á sömu greiðslum. Þannig að í frumvarpinu er í raun verið að samræma lög um meðlag og lög um barnalífeyri að þessu leyti. Auðvitað á ekki að mismuna börnum eftir því hvort foreldrar þeirra séu látnir eða á lífi,“ segir Silja Dögg alvarleg á svip.
Rabbínar mótmæla banni við umskurði drengja
Mikið fjaðrafok á alþjóðavísu hefur orðið vegna framlagðs frumvarps Silju Daggar um banni á umskurði drengja. Í lögum frá 2005 er umskurður á stúlkum og konum bannaður. „Mér var bent á að á Íslandi væru ekki til nein lög um umskurð á drengjum. Ég hafði aldrei velt því fyrir mér en þegar ég fór að skoða málið þá áttaði ég mig á að um barnaverndarmál væri að ræða. Sumir vilja tengja umskurð við ákveðin trúarbrögð en í raun fyrirfinnast hefðir um umskurð víða, einnig í kristnum ríkjum. Aðgerðin er óafturkræf og gerð á mjög ungum börnum, án deyfingar, og veldur sýkingarhættu. Umskurður getur einnig valdið körlum sársauka og vandkvæðum alla ævi. Mér þótt tilefni til að leggja fram frumvarp og taka þetta mál til umræðu hér á landi en fyrir danska þinginu liggur fyrir sambærilegt mál,“ segir Silja Dögg en þess má geta að Umboðsmenn barna á öllum Norðurlöndum sendu frá sér yfirlýsingu árið 2013 þar sem Norðurlöndin voru hvött til að banna umskurð á drengjum en aðgerðin stangast á við Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. „Vaxandi andstaða er við umskurð á meðal lækna á alþjóðavísu, Barnaheill hafa beitt sér í málinu og ég hef einnig fengið fjölda bréfa frá ísraelskum gyðingum, eftir að málið komst í heimfréttirnar, þar sem þeir segjast styðja frumvarpið og að aukin andstaða sé við umskurð á drengjum í þeirra samfélagi,“ segir Silja Dögg og bætir því við að hún hafi nú ekki búist við að samtök rabbína í Evrópu myndu beita sér í málinu. „Þeir hafa reyndar ekki haft beint samband við mig ennþá,“ segir Silja Dögg og brosir.
Ætlar þú að leggja fram fleiri á mál á þessu þingi?
„Já, í lok febrúar mun ég leggja fram stórt frumvarp sem mun vekja mikla athygli og umræðu,“ segir Silja Dögg að lokum.
Auk ofantaldra mála hefur Silja Dögg lagt fram eftirfarandi mál á 148. löggjafarþingi:
Þingsályktunartillögu um rétt barna, sem getin eru með gjafakynfrumum, til að vita um uppruna sinn og að verklag um fjarfundi á vegum ráðuneyta verði samræmt. Að auki hefur hún endurflutt frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um að fangar geti áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta, sinni þeir námi eða vinnu á meðan á afplánun stendur.
Birtist í Suðurnesjablaðinu 15.febrúar.