Í stefnuskrá okkar Framsóknarfólks, sem kynnt verður formlega á næstu dögum, leggum við m.a. áherslu á mannauðsmál. Akureyrarbær er stór vinnuveitandi og því er mikilvægt að þau framboð sem bjóða fram til kosninga hér í bæ hafi mótaða stefnu í málum er snúa að starfsaðstæðum og vinnufyrirkomulagi ríflega 1.500 starfsmanna Akureyrarbæjar.
Í undirbúningi við gerð stefnuskrár okkar höfum við átt samræður við starfsfólk bæjarins og ljóst er að víða er staðan orðin erfið. Kröfur samfélagsins til starfsmanna og þjónustu af þeirra hálfu eru sífellt að aukast og mikið álag hefur orsakað aukin veikindi og ekki síst langtímaveikindi og við því þarf að bregðast.
Margt hefur áunnist í starfsmannamálum bæjarins á liðnum árum og á síðasta ári var m.a. samþykkt metnaðarfull mannauðsstefna fyrir Akureyrarbæ. Við Framsóknarfólk teljum mikilvægt að stefnunni verði fylgt eftir. Leggja þarf áherslu á gott starfsumhverfi, heilsueflingu, starfsanda, aðbúnað og öryggi starfsfólks. Við teljum mikilvægt að skoða sérstaklega vinnufyrirkomulag og starfsaðstæður m.a. í velferðarþjónustu og hjá Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar. Álag í leik- og grunnskólum er orðið þannig að flótti starfsfólks er staðreynd og við því þarf að bregðast. Bæta þarf aðstöðu barna og starfsmanna í leikskólum og við teljum rétt að skoða möguleika á breyttri útfærslu á skráningu í vinnustund hjá grunnskólakennurum.
Ljóst er að gott samfélag byggist upp á góðri þjónustu af hendi sveitarfélagsins. Sú þjónusta verður ekki veitt nema með hæfu og góðu starfsfólki sem starfar við ákjósanlegar starfsaðstæður og aðbúnað. Við höfum gert margt gott en það er hægt að gera betur. Það ætlum við Framsóknarfólk að gera.
Akureyri til framtíðar. X-B
Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi og Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi.
Greinin birtist fyrst á kaffið.is 1. maí 2018.