Categories
Greinar

Um fjármál og atvinnumál Dalvíkurbyggðar

Deila grein

07/05/2018

Um fjármál og atvinnumál Dalvíkurbyggðar

Nú líður að því að gengið verði til kosninga til sveitarstjórnar. Því ákváðum við undirritaðir að festa á blað hugrenningar okkar um fjármál og atvinnumál þessa góða sveitarfélags.

Við getum verið stolt af rekstri sveitarfélagsins. Nýlega var ársreikningur fyrir árið 2017 lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn og staðfestir hann sterka stöðu. Samkvæmt ársreikningi 2017 má sjá að veltufé frá rekstri, A og B hluta er mjög gott, eða um 343 milljónir kr. Þess má geta til fróðleiks að veltufé frá rekstri er það fé sem sveitarfélagið hefur til framkvæmda og afborgunar lána. Þá má nefna að skuldahlutfall sveitarfélagsins, það er heildarskuldir á móti tekjum hefur lækkað úr um 97% árið 2012 niður í um 50% árið 2017, sem er með því lægsta meðal íslenskra sveitarfélaga (sjá mynd sem sýnir þróunina 2012-2016). Þá er sú ánægjulega þróun að eiga sér stað að okkur er að fjölga aftur eftir nokkur ár fækkunar. Þannig fjölgaði íbúum byggðalagsins úr 1.831 þann 1. janúar 2017, í 1.880 þann 1. janúar 2018 eða um 2,7%.

Mynd. Þróun skuldahlutfalls Dalvíkurbyggðar 2012-2016. Tekið af vef sambands íslenskra sveitarfélaga.

Staðan í dag gefur því svigrúm til að efla gott samfélag. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2018 , með áorðnum viðaukum, eru áætlaðar framkvæmdir sveitarfélagsins um 290 milljónir króna og samkvæmt þriggja ára áætlun, um 270 milljónir króna árið 2019. Það er því ljóst að mikið er verið að framkvæma á vegum sveitarfélagsins og því þarf að varast að fara ekki fram úr okkur því að eins og við vitum þá gengur efnahagslífið okkar í hæðum og lægðum ef litið er til sögunnar. Nú erum við á toppi hagsveiflunnar og gæta þarf þess að auka ekki á þensluna. Forgangsraða þarf þegar kemur að framkvæmdum og sinna þarf nauðsynlegu viðhaldi á eignum sveitarfélagsins. Ef til niðursveiflu kemur er gott að eiga borð fyrir báru til að geta viðhaldið því háa þjónustustigi sem hér er og getunni til að halda áfram uppbyggingu í sveitarfélaginu.

Tilefni er til bjartsýni um framtíð sveitarfélagsins og vel hefur gengið í rekstri  á líðandi kjörtímabili.. Við búum yfir miklum og góðum mannauði, ferðaþjónustan er á uppleið og öflug fyrirtæki í mörgum greinum atvinnulífsins til sjávar og sveita. Við höfum alla burði til að laða að okkur fyrirtæki og því þurfum við að auglýsa okkur vel sem fýsilegan kost. Við erum í samkeppni um fólk og fyrirtæki við önnur sveitarfélög og verðum við því að leggja áherslu á ágæti okkar sem sveitarfélags. Liður í því væri t.d. öflug markaðssetning byggðalagsins til þeirra er hyggja á atvinnurekstur og sem vænlegs búsetukosts, sem og stuðla að nýsköpun.

Vinna þarf nýtt aðalskipulag og deiliskipulegga bæði íbúðar og fyrirtækjalóðir þar sem markmið fulltrúa B lista er að efla byggðalagið með fjölgun íbúa og starfa á svæðinu. Búið er að sækja um mikið af byggingalóðum til íbúðabygginga og því þörf á að skipuleggja ný svæði.

Eins og áður hefur komið fram þá eru miklar framkvæmdir á árinu og á því næsta og boginn því vel spenntur á útgjaldahliðinni. Styrkleikar byggðalagsins, lág skuldastaða og góð afkoma gerir okkur kleift að standa undir mikilvægum framkvæmdum og háu þjónustustigi. Það er ósk frambjóðenda B lista, fáum við til þess umboð kjósenda, að halda áfram á sömu braut og undanfarið kjörtímabil. Við viljum halda áfram uppbyggingu sveitarfélagsins eins og verið hefur en jafnframt gæta aðhalds, varkárni og ráðdeildar í rekstri. Aðeins þannig getum við haldið áfram uppbyggingu og viðhaldið háu þjónustustigi til lengri tíma.

Sumarkveðjur, Felix Rafn Felixsson, sæti B-lista og Kristinn Bogi Antonsson, 8. sæti B-lista 2018.