Categories
Greinar

Framsókn vill fara finnsku leiðina

Deila grein

07/05/2018

Framsókn vill fara finnsku leiðina

Árangur Finna í menntun vekur umhugsun annarra þjóða. Í landinu eru 3500 skólar og í þeim starfa 62.000 kennarar. Eingöngu efstu 10% útskrifaðra grunnnema í Háskóla komast að í meistaranámi til kennsluréttinda. Já, þið lásuð rétt, eingöngu hæstu 10% að fara í kennaranámið. Viljirðu gerast sérkennari í Finnlandi þarftu sem gefur að skilja að bæta við þig námi og er námstíminn því 6 ár en ekki hin hefðbundnu 5 ár. Laun eru í samræmi við menntun og ábyrgð.
Finnar eru þeirrar skoðunar að gæði kennaranáms og kennararnir sjálfir séu það sem púðrið eigi að fara í. Markmiðið er að efla þá nemendur eða einstaklinga í skólakerfinu sem viðkvæmir eru fyrir og þannig fá um 30% allra finnskra nemenda sérúrræði og stuðning af einhverju tagi á fyrstu níu árum skólagöngu sinnar. Stefnan er sú að skólarnir séu litlir svo allir kennarar þekki flesta eða alla nemendur. Þannig verður þjónustan og umhverfið persónulegra og nándin meiri. Leikur fær stóran sess í skipulaginu öllu þvert á námsgreinar.
Ef kennari lendir í blindgötu með að ná til nemanda síns er markvisst leitað til samkennara við skólann og lausna leitað í sameiningu. Eins sameinast bekkir að hluta til eða að öllu leyti til að styrkja veikleika eða efla heildina. Allt er þetta gert undir stjórn og að frumkvæði kennaranna sjálfra. Þeir ráða för.
Endurreisn finnska skólakerfisins
Nú eru um 45 ár síðan finnska skólakerfið var endurmetið í kjölfar efnahagslegs hruns og styrjalda á fyrri áratugum síðustu aldar. Til að efla samkeppnishæfi landsins og koma því inn í nútímann og svo framtíðina varð að mennta alla. Þetta snerist fyrst og fremst um það að lifa af í nýju pólitísku umhverfi. Þverpólitísk ákvörðun var tekin og sátt var um það að mennt er máttur og um leið grunnstoðir hvers samfélags. Því skyldi koma á skólakerfi byggðu á jafnrétti og jöfnum tækifærum en ekki samkeppni og miðstýringu.

Tölfræðin ekki rétti mælikvarðinn

Bandaríkjamenn hafa farið þá leið að etja til samkeppni á menntasviði með gríðarlegum stuðningi fjármálageirans á Wall Street og auðkýfinga á við Bill Gates sem styðja við einkarekna skóla og svokallaða leiguskóla eða “charter schools”. Jafnvel Obama hefur stutt við samkeppnissjónarmið milli skóla með því að gefa þeim tækifæri til frekari fjárúthlutana í gegnum námsárangur og jákvæða tölfræði. Í Finnlandi myndu kennarar fljótt snúast gegn slíku kerfi. Segja þeir, og réttilega svo, að metir þú eingöngu tölfræðina þá missirðu af mannlega þættinum. Við getum öll verið sammála þessu. Eða hvað?

Ekki allt upptalið

Í Finnlandi er eitt samræmt próf sem allir taka í lok síðasta skólaárs síns í grunnskóla.
Skólar eru reknir af skólafólki með þekkingu og reynslu úr skólakerfinu, bæði í skólunum sjálfum og í stjórnsýslunni. Skólar eru fjármagnaðir af hinu opinbera og jafnræðis er gætt. Ganga þeir svo langt að segja jafnrétti vera mikilvægasta orð finnska menntakerfisins. Allir stjórnmálaflokkar frá hægri til vinstri eru samhuga um það.
93% Finna útskrifast úr bók- eða verknámi af einhverju tagi á framhaldsskólastigi. 17,5 prósentustigum fleiri en í Bandaríkjunum. 66% finnskra ungmenna halda áfram í námi og sækja sér frekari menntun og er það hæsta hlutfall innan Evrópusambandsins. Finnar eyða aftur á móti 30% minna fjármagni í hvern nemanda en t.d. Bandaríkjamenn.
Hinum mikla árangri af þessum skipulagsbreytingum vissi enginn formlega af fyrr en PISA kom til sögunnar. Þá voru finnskir nemendur hæstir í læsi af 50 löndum. Þremur árum seinna skoruðu þeir einnig hæst í stærðfræði af 57 löndum. Árið 2006 var Finnland einnig efst í náttúrufræði. Árið 2009 voru finnar 6. hæstir í stærðfræði, önnur hæsta þjóðin í náttúrufræði, þriðja hæsta í læsi af yfir milljón nemendum um heim allan.
Munurinn á nemendum sem gengur best og verst er hvergi minni en í Finnlandi samkvæmt könnun OECD. Kennarar koma allir frá sama þjálfunargrunni og alls staðar er boðið upp á sömu kennsluna, sömu markmiðin og sömu menntunarmöguleikana.
Finnar eru þó ekki montnir af afrekum sínum. PISA er ekki í hávegum höfð og niðurstöðum hennar ekki fagnað þar sem þeir meta hlutverk sitt sem aðstoð við að læra að læra en ekki hvernig á að taka próf. PISA er ekki það sem skólinn snýst um í Finnlandi.
Finnskir kennarar eyða minni tíma við borðin sín og minni tíma í kennslustundum en kollegar þeirra í Bandaríkjunum. Kennarar nota aukatímann í að byggja upp og skipuleggja nám og námsefni og meta stöðu nemenda sinna og leita leiða til að koma til móts við ólíkar þarfir þeirra.
Útileikur og frímínútur spilar stóran þátt í skóladeginum í öllum veðrum og byrjar skólinn ekki fyrr en við 7 ára aldur. Vilja Finnar meina að engin þörf sé á að flýta námi barna, þau læri betur þegar þau eru tilbúin.

Finnsk velferð

Í Finnlandi er fæðingarorlofið 3 ár og niðurgreidd daggæsla fyrir foreldra, leikskóli fyrir alla frá 5 ára aldri þar sem áhersla er á leik og samskipti. Ríkið greiðir foreldrum einnig veglegar barnabætur eða um 150 evrur á mánuði fyrir hvert barn fram að 17 ára aldri. 97% allra 6 ára barna fara í leikskóla þar sem formlegt nám hefst að vissu leyti. Skólar útvega nemendum sínum mat og námsgögn og akstursþjónustu sé þess þörf. Heilsugæsla nemenda er fjölskyldum að kostnaðarlausu.
Kennari í Finnlandi fylgir bekknum sínum í tvö ár eða lengur og sérstakir bekkir eru fyrir nemendur af erlendu bergi brotnu, þar sem kennslan er í höndum sérfræðinga í fjölþjóðlegri kennslu og með sérstökum stuðningi yfirvalda í formi fjármagns til að kosta sérkennara og aukins bekkjarfjölda (færri nemendur í hópi og því fleiri kennarar).
Lynell Hancokc, sem skrifaði þessa grein hér, heimsótti skóla í hverfi þar sem íbúar eiga margir hverjir við vissa félagslega erfiðleika að stríða og þar sem helmingur nemenda átti við námsörðugleika að stríða. Fékk hún þær upplýsingar að auka styrkur færi til skólans upp á 47.000 evrur til að koma til móts við aukið hlutfall nemenda með sérþarfir. Eins og gefur að skilja þurfa sérkennarar aukna menntun á við hinn almenna kennara. Það merkir að sérkennarar kosta meira. Í umræddum skóla í Helsinki er einn kennari eða starfsmaður á hverja sjö nemendur. Af því að kennarar meta sem svo að þess þurfi!

Íslenska leiðin

Á Íslandi boða stjórnvöld stórsókn í menntamálum. Samninganefnd sveitarfélaga fékk ekki minnisbréfið um það og bauð grunnskólakennurum 3% launahækkun nú á dögunum, sem grunnskólakennarar felldu með miklum meirihluta atkvæða.
Miðstýring í skólakerfinu hefur einnig stóraukist undanfarin ár. Aukið samræmi og samstarf annars vegar og miðstýring hins vegar er ekki það sama og helst því síður í hendur.
Við getum gert betur!
Höfundur er grunnskólakennari og að ljúka meistaranámi í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands.
Hjördís skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins í borgarstjórnarskosningunum í vor.
Byggt á grein Lynell Hancock Why Are Finland’s Schools Successful?
Grein sem birtist undir Skoðun á visir.is þann 3. apríl 2018