Það þarf ekki að fara mörgum orðum yfir mikilvægi þess að hafa virkt íþrótta og tómstundastarf í sveitafélaginu. Það hefur ekki aðeins forvarnalegt gildi fyrir börnin okkar heldur litar það líka menningu og lífstíl allra íbúa sveitafélagsins. Við viljum leiða börnin okkar áfram af reglu- og heilsusömu líferni til að styrkja þau og móta til framtíðar. Brottfall unglinga úr íþróttum er mikið áhyggjuefni, sérstaklega á meðal stúlkna. Það er okkur í Framsókn mikið kappsmál að breyta þessari þróun og styðja við uppbyggingu á nýju fjölnota íþróttahúsi til að bæta aðbúnað við íþrótta og tómstundarstarf í Borgarbyggð.
Höldum unga fólkinu í Borgarbyggð
Á mínum yngri árum fékk ég tækifæri til að stunda mína íþrótt í Borgarbyggð enda mikill áhugi og umgjörð í kringum körfuboltann á þeim tíma en því miður var þó minni áhugi á meðal kvenkyns iðkenda. Þegar kom að því að fara í framhaldsskóla valdi ég skóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég þurfti að flytja mig úr bæjarfélaginu til að halda áfram að sinna mínum áhugamálum. Það var ánægjulegt að fá tækifæri til að spila aftur með uppeldisfélagi mínu í Borgarnesi þegar liðið komst uppí úrvaldseild kvenna haustið 2016. Það eitt að spila með félaginu aftur eftir langa bið var frábær tilfinning. En það sem vakti þó enn meiri áhuga og ástríðu var sú umfjöllun og umgjörð utanum liðið sem vakti áhuga hjá yngri iðkendum sem líta upp til leikmanna liðsins sem fyrirmyndir. Af því sögðu sé ég hversu mikilvægt það er að hafa öfluga innviði til að styðja við íþrótta- og tómstundastörf sem laða að sér góðar fyrirmyndir og vekur upp eldmóð og áhuga barna og unglinga. Það er auðvelt að heltast úr lestinni eða þurfa að flytja úr sveitafélaginu til að halda áfram að stunda sína íþrótt ef stuðningurinn er ekki til staðar. Það verða ekki allir atvinnumenn en skemmtun og forvarnargildi er það sem skiptir höfuð máli, allir eiga að geta stundað sitt áhugamál og haft ánægju af.
Uppbygging á íþróttamannvirkjum
Okkar trú er að öflug menntun, menning, tómstundir og íþróttir sé lykill að farsælu samfélagi. Til þess vill Framsókn að komið sé upp íþróttaakademíu á mennta- og háskólastigi sem mun laða að öflugt íþróttafólk, bæði úr sveitarfélaginu okkar og nágrannasveitarfélögum. Slík uppbygging mun skila öflugu íþrótta- og menningastarfi sem er hvatning til barna og unglinga og mun móta skemmtilega félagsmenningu sem sameinar sveitarfélagið í blíðu og stríðu. Því vill Framsókn standa fyrir byggingu á nýju fjölnota íþróttahúsi, íþróttaakademíu og betra aðgengi allra íbúa sveitafélagsins með bættum samgöngum og styrkjum til íþrótta iðkunar með það markmið að auka forvarnir og minnka brottfall og brottflutnings ungs fólks úr sveitafélaginu.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir
Höfundur skipar 4 sæti á lista Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.