Categories
Greinar

Ævintýrið í Rússlandi að hefjast

Deila grein

15/06/2018

Ævintýrið í Rússlandi að hefjast

Velgengni íslensku landsliðanna í knattspyrnu hefur fyllt okkur stolti, gleði og tilhlökkun. Árangurinn blæs líka baráttuanda og krafti í fjölda barna og unglinga sem fylgjast spennt með sínum fyrirmyndum. Vegna þessa er hlaupið hraðar, sparkað fastar og stefnt hærra. Íþróttafólkið okkar býr yfir metnaði, dugnaði og vinnusemi. Það hefur sett sér markmið, keppt að þeim sama hvað dynur á og haldið í gleðina yfir stórum sem smáum sigrum.

Að baki góðum árangri íslensks íþróttafólks er þrotlaus vinna þess og samfélagsins í gegnum áratugina. Í þessu samhengi langar mig að nefna þrennt sem skiptir máli til að styrkja umgjörðina í kringum við íþróttirnar. Í fyrsta lagi fjárfesting í innviðum en það er sú aðstaða sem við búum íþróttafólkinu okkar. Í öðru lagi baklandið, en það er fólkið sem leggur sitt af mörkum með stuðningi sínum, elju og ástríðu. Þetta eru fjölskyldurnar, starfsfólkið í íþróttahúsunum, sjálfboðaliðarnir og aðrir velunnarar. Þau eru að uppskera ríkulega þessa dagana. Í þriðja lagi jafn aðgangur að íþróttastarfi, óháð aðstæðum og efnahag. Það skiptir sköpum að öll börn njóti jafnra tækifæra til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi, en rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif þess að taka þátt í slíku starfi.

Framundan eru spennandi og skemmtilegir tímar. Ævintýrið í Rússlandi er rétt að byrja. Við fylgjumst spennt með framgangi karlalandsliðsins sem brátt spilar sinn fyrsta heimsmeistaramótsleik gegn Argentínu. Ísland er fámennasta ríki veraldar til að vinna sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramótinu og vegna þessa beinast augu margra hingað í undrun og forvitni yfir þessum árangri. Í tengslum við fyrsta leikinn í Moskvu er skipulögð menningarkynning á vegum íslenskra stjórnvalda þar í borg. Sérstök áhersla er lögð á barnabókmenntir og tónlist. Með því viljum við tengja saman íþróttir og menningu og kynna þá miklu grósku sem á sér stað á báðum þessum sviðum.

Íþróttir eru samofnar þjóðarsálinni. Það er því engin tilviljun að sameiningarmáttur íþróttanna er mikill. Íþróttafólkið okkar veitir innblástur og tækifæri til þess að efna til mannamóta og gleðjast. Sem ráðherra íþróttamála sendi ég baráttukveðjur og bestu óskir til Rússlands og óska öllum landsmönnum gleðilegrar fótboltahátíðar næstu vikurnar þar sem slagorðið verður tvímælalaust: Áfram Ísland!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.