Categories
Greinar

Ísland er land tækifæranna

Deila grein

21/06/2018

Ísland er land tækifæranna

Þingveturinn hefur verið skemmtilegur og stór mál verið afgreidd í þinginu, eins og lög velferðarráðherra um notendastýrða persónulega þjónustu fyrir fatlað fólk, NPA og samhliða breytingar á lögum um félagsþjónustu. Mjög mikilvæg mál sem afgreidd voru í sátt eftir margra ára undirbúningsvinnu. Fjármálaáætlun til næstu fimm ára var afgreidd í þinglok en þar er áhersla á uppbygginu samgöngu-, mennta- og velferðar- og heilbrigðismála.

Gott samfélag fyrir alla

Verkefni stjórnvalda hverju sinni er að skapa sterkt samfélag og auka samkeppnishæfni landsins þannig að Ísland verði land tækifæranna fyrir alla landsmenn. Menntakerfi gegna lykilhlutverki í samkeppnishæfni þjóða. Ísland er þar engin undantekning. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að menntakerfið sé í stakk búið til takast á við áskoranir framtíðar. Í því ljósi hefur menntamálaráðherra hrint af stað undirbúningsvinnu við gerð menntastefnu Íslands til ársins 2030.

Bætt umgjörð kennarastarfsins

Menntakerfið þarf að vera sveigjanlegt og mætt þörfum ólíkra einstaklinga. Unnið er að því að bæta umgjörð kennarastarfsins og auka nýliðun stéttinni. Ánægjuleg tíðindi bárust á dögunum um að umsóknartölur í kennaranámið lágu fyrir, en um talsverða fjölgun er að ræða. Einnig er verið að efla verk-, iðn- og starfsnám ásamt því að styrkja fullorðinsfræðslu. Staðreyndin er sú að mun færri eru í starfsnámi á Íslandi eða um 32 prósent meðan þetta hlutfall er um 50 prósent í Noregi og  öðrum ríkjum í Evrópu. Íslenskt starfsmenntakerfi er öflugt en það hefur skort hvatningu til að sækja námið, þrátt fyrir góðar atvinnuhorfur og tekjumöguleika. Unnið er að því að einfalda aðgengi að náminu, auka skilvirkni þess og lækka kostnað nemenda við að sækja námið. Atvinnulífið er fullt af tækifærum fyrir einstaklinga með þessa menntun.

Auknir fjármunir til menntamála

Það sem af er kjörtímabili hafa þegar verið stigin mikilvæg skref til þess að efla menntakerfið. Framlög til háskólastigsins voru aukin um tæpa 2,9 milljarða eða 6,9% í ár miðað við fjárlög 2017. Hækkun er ætlunin að efla bæði kennslu og rannsóknir svo bæta megi þjónustu við nemendur og styrkja alþjóðlegt samstarf. Framlög til framhaldsskólanna hækkuðu um 1.290 milljónir króna í ár miðað við fjárlög 2017, eða 4,4%. Unnið er að eflingu verk-,iðn-, og starfsnáms með ýmsum hætti og voru efnisgjöld á nemendur í skylduáföngum til að mynda afnumin. Framfærslugrunnur LÍN var hækkaður úr 92% af reiknaðri framfærslu í 96%. Breytingar upp á 340 milljónir. Við ætlum að halda áfram á sömu braut.

Viðhald og umferðaröryggi

Ríkisstjórnin vill hraða uppbyggingu í vegamálum til að tryggja umferðaröryggi vegfarenda og treysta fjölbreytt atvinnulíf um land allt. Fjórum milljörðum króna var varið aukalega til brýnna vegaframkvæmda. Fjármagnið fer í viðhaldsverkefni vítt og breitt um landið með sérstaka áherslu á vegi á Suðurlandi sem fóru illa í vetur og búa við mikinn umferðarþunga. Þá er gert ráð fyrir 16,5 milljörða viðbótarfjármagni til næstu þriggja ára til samgöngumála. Samgönguráðherra hefur lagt ríka áherslu á að fjármagn verði sett í til að bæta öryggi í umferðinni. Til marks um það þá var vetrarþjónusta á þjóðvegakerfinu aukin í byrjun árs og mokstursdögum fjölgað á ákveðnum leiðum á Suðurlandi. Góðar hálkuvarnir auka öryggi og þörfin var brýn víða þar sem umferð hefur aukist með tilkomu aukinna ferðalaga yfir veturinn.

Ríkisstjórn Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks hefur afkastað miklu á stuttum tíma. Starfsandinn er góður og verkefnin næg. Uppbygging til sjávar og sveita er hafin.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Suðra 21. júní 2018.