Samstarf Norðurlandaþjóða er okkur verðmætt. Menning okkar og tungumál eru svipuð og auðvelt er að sækja sér nám og vinnu á Norðurlöndum samanborið við önnur svæði. Þau eru sem okkar heimavöllur en á þriðja tug þúsunda Íslendinga eru ýmist í námi eða í vinnu víðs vegar um svæðið. Samanlagt eru Norðurlandaríkin stærsta einstaka „viðskiptaland“ okkar sé litið til vöru og þjónustu. Að því þarf að hlúa.
Slíkur árangur er ekki sjálfgefinn þó að löndin séu innbyrðis lík og deili svipuðum gildum, sögu og menningu. Ákvörðunin um að Norðurlandaríkin eigi að vinna saman er meðvituð. Samvinnan leysir úr læðingi sköpunarkraft og styrkleika sem verða ekki til nema af því að löndin styðja hvert annað á norrænum vettvangi. Löndin sækja hugmyndir að góðum lausnum hvert til annars, skiptast á reynslu, ræða þróun mála og sameiginlega hagsmuni Norðurlandaríkjanna. Slíkt samtal er mikilvægt.
Samkeppnishæfni
Norrænt samstarf skiptir okkur meira máli nú, ekki síst þegar svo mikill órói er á alþjóðavettvangi. Þá þéttum við Norðurlandaríkin samstarf okkar inn á við og gerum okkar besta til að hafa góð áhrif út í heim. Sama má segja um samtal er varðar löggjafarstarfsemi á vettvangi Evrópusambandsins.
Með norrænni samvinnu má draga fram sérstöðu landanna sem styrkir samkeppnishæfni þeirra út á við. Norðurlandaríkin geta þannig vakið athygli á sérstöðu sinni á hvaða vettvangi sem er, til að mynda í matvælaframleiðslu og öryggi matvæla. Í mínum huga stendur Ísland öðrum löndum framar hvað varðar framleiðslu á heilnæmum matvælum, í sjávar- og landbúnaðarafurðum. Með heilnæmum matvælum er átt við hreinar afurðir í landi þar sem lyfjanotkun er með því allra minnsta sem þekkist í heiminum.
Norðurlandaríkin hafa sett matvælaöryggi á dagskrá. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að matvæli eigi að flæða frjálst á milli landa á EES-svæðinu eins og hverjar aðrar vörur. Ekki í þeim tilfellum þegar verja þarf lýðheilsu gegn matvælum sem geta haft skaðleg áhrif á lífríkið hér á landi en ekki á meginlandi Evrópu. Ísland býr við þá sérstöðu umfram önnur lönd að auðveldara er að verjast sjúkdómum, forðast sýklalyfjaónæmi og draga úr útbreiðslu slíkra baktería vegna þess að við erum eyja með hreina búfjárstofna. Slíkt er eftirsóknarvert.
Þrátt fyrir framþróun á nýjum sýklalyfjum hafa áhyggjur vísindafólks víða um heim farið vaxandi síðastliðin ár vegna vaxandi sýklalyfjaónæmis, sem er ógn sem taka þarf alvarlega. Það skiptir máli hvernig vara er framleidd og hvað þú býður þér og börnum þínum að borða. Þar erum við á Norðurlöndum sammála og að mestu samstiga.
Gagnvegir góðir
Norðurlandaráð er dæmi um vettvang sem getur sett mál á dagskrá sem varðar okkar hagsmuni. Ísland tekur við formennsku í norrænu ráðherranefndinni á næsta ári. Okkar áætlun var kynnt á Norðurlandaráðsþinginu í Osló. Það þýðir að norrænir fundir og ráðstefnur færast til Íslands og samstarfið fer að stórum hluta fram hér á landi. Tækifæri eru í því til að treysta okkur fótfestu í samstarfinu.
Yfirskrift formennskunnar er Gagnvegir góðir, sem er sótt í Hávamál. Áherslan í formennskutíð Íslands er á þrjú meginatriði; ungt fólk á Norðurlöndum, sjálfbæra ferðamennsku í norðri og hafið – bláan vöxt í norðri. Sérstökum formennskuverkefnum verður ýtt úr vör, sem stýrt verður frá Íslandi. Markmiðið er að efna til innihaldsríks norræns samstarfs um þessi málefni sem skili raunverulegum niðurstöðum og árangri fyrir almenning á Norðurlöndum. Formennskan mun m.a. leggja áherslu á að styðja lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu við að nýta sér vaxtarmöguleika sem felast í staðbundnum matvælum og stafrænni tækni.
Í formennskunni verður einnig settur fókus á málefni Vestur-Norður landaríkjanna, þ.e. Færeyja og Grænlands, og á norðurslóðamálin. Þar munum við samnýta krafta með formennsku okkar í Norðurskautsráðinu sem hefst líka á næsta ári. Síðast en ekki síst tengjum við alla formennskuáætlun okkar við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna – og þannig við umhverfismálin.
Við erum einfaldlega komin á þann stað að allt sem við gerum, þar með talið sjálfbærni matvæla, þarf að þjóna því markmiði að tryggja sjálfbærni og stemma stigu við loftslagsbreytingum. Margt smátt gerir eitt stórt, og formennskuverkefnin eru hluti af því.
En fyrst og fremst viljum við koma með jákvæða orku og nýjar hugmyndir inn í norrænt samstarf á næsta ári, vera traust og ábyggilegt formennskuríki og tryggja að norrænt samstarf sé áfram kraftmikið og árangursríkt í okkar allra þágu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. október 2018.