Categories
Greinar

Norræn samvinna

Deila grein

31/10/2018

Norræn samvinna

Sam­starf Norður­landaþjóða er okk­ur verðmætt. Menn­ing okk­ar og tungu­mál eru svipuð og auðvelt er að sækja sér nám og vinnu á Norður­lönd­um sam­an­borið við önn­ur svæði. Þau eru sem okk­ar heima­völl­ur en á þriðja tug þúsunda Íslend­inga eru ým­ist í námi eða í vinnu víðs veg­ar um svæðið. Sam­an­lagt eru Norður­landa­rík­in stærsta ein­staka „viðskipta­land“ okk­ar sé litið til vöru og þjónustu. Að því þarf að hlúa.

Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn þó að lönd­in séu inn­byrðis lík og deili svipuðum gild­um, sögu og menn­ingu. Ákvörðunin um að Norður­landa­rík­in eigi að vinna sam­an er meðvituð. Sam­vinn­an leys­ir úr læðingi sköp­un­ar­kraft og styrk­leika sem verða ekki til nema af því að lönd­in styðja hvert annað á nor­ræn­um vett­vangi. Lönd­in sækja hug­mynd­ir að góðum lausn­um hvert til ann­ars, skiptast á reynslu, ræða þróun mála og sam­eig­in­lega hags­muni Norður­landa­ríkj­anna. Slíkt sam­tal er mik­il­vægt.

Sam­keppn­is­hæfni

Nor­rænt sam­starf skipt­ir okk­ur meira máli nú, ekki síst þegar svo mik­ill órói er á alþjóðavett­vangi. Þá þétt­um við Norður­landa­rík­in sam­starf okk­ar inn á við og ger­um okk­ar besta til að hafa góð áhrif út í heim. Sama má segja um sam­tal er varðar lög­gjaf­ar­starf­semi á vett­vangi Evr­ópu­sam­bands­ins.

Með nor­rænni sam­vinnu má draga fram sér­stöðu land­anna sem styrk­ir sam­keppn­is­hæfni þeirra út á við. Norður­landa­rík­in geta þannig vakið at­hygli á sér­stöðu sinni á hvaða vett­vangi sem er, til að mynda í mat­væla­fram­leiðslu og ör­yggi mat­væla. Í mín­um huga stend­ur Ísland öðrum lönd­um fram­ar hvað varðar fram­leiðslu á heil­næm­um mat­væl­um, í sjáv­ar- og land­búnaðar­af­urðum. Með heilnæm­um mat­væl­um er átt við hrein­ar afurðir í landi þar sem lyfja­notk­un er með því allra minnsta sem þekk­ist í heim­in­um.

Norður­landa­rík­in hafa sett mat­væla­ör­yggi á dag­skrá. Það er nefni­lega ekki sjálf­gefið að mat­væli eigi að flæða frjálst á milli landa á EES-svæðinu eins og hverj­ar aðrar vör­ur. Ekki í þeim til­fell­um þegar verja þarf lýðheilsu gegn mat­væl­um sem geta haft skaðleg áhrif á líf­ríkið hér á landi en ekki á meg­in­landi Evr­ópu. Ísland býr við þá sér­stöðu um­fram önn­ur lönd að auðveld­ara er að verj­ast sjúk­dóm­um, forðast sýkla­lyfja­ónæmi og draga úr út­breiðslu slíkra bakt­ería vegna þess að við erum eyja með hreina búfjár­stofna. Slíkt er eft­ir­sókn­ar­vert.

Þrátt fyr­ir framþróun á nýj­um sýkla­lyfj­um hafa áhyggj­ur vís­inda­fólks víða um heim farið vax­andi síðastliðin ár vegna vax­andi sýkla­lyfja­ónæm­is, sem er ógn sem taka þarf al­var­lega. Það skipt­ir máli hvernig vara er fram­leidd og hvað þú býður þér og börn­um þínum að borða. Þar erum við á Norður­lönd­um sam­mála og að mestu sam­stiga.

Gagn­veg­ir góðir

Norður­landaráð er dæmi um vett­vang sem get­ur sett mál á dag­skrá sem varðar okk­ar hags­muni. Ísland tek­ur við for­mennsku í nor­rænu ráðherra­nefnd­inni á næsta ári. Okk­ar áætl­un var kynnt á Norður­landaráðsþing­inu í Osló. Það þýðir að nor­ræn­ir fund­ir og ráðstefn­ur fær­ast til Íslands og sam­starfið fer að stór­um hluta fram hér á landi. Tæki­færi eru í því til að treysta okk­ur fót­festu í samstarf­inu.

Yf­ir­skrift for­mennsk­unn­ar er Gagn­veg­ir góðir, sem er sótt í Há­va­mál. Áhersl­an í for­mennskutíð Íslands er á þrjú meg­in­at­riði; ungt fólk á Norður­lönd­um, sjálf­bæra ferðamennsku í norðri og hafið – blá­an vöxt í norðri. Sér­stök­um for­mennsku­verk­efn­um verður ýtt úr vör, sem stýrt verður frá Íslandi. Mark­miðið er að efna til inni­halds­ríks nor­ræns sam­starfs um þessi mál­efni sem skili raun­veru­leg­um niður­stöðum og árangri fyr­ir al­menn­ing á Norður­lönd­um. For­mennsk­an mun m.a. leggja áherslu á að styðja lít­il fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu við að nýta sér vaxt­ar­mögu­leika sem fel­ast í staðbundn­um mat­væl­um og sta­f­rænni tækni.

Í for­mennsk­unni verður einnig sett­ur fókus á mál­efni Vest­ur-Norður landa­ríkj­anna, þ.e. Fær­eyja og Græn­lands, og á norður­slóðamál­in. Þar mun­um við sam­nýta krafta með for­mennsku okk­ar í Norður­skauts­ráðinu sem hefst líka á næsta ári. Síðast en ekki síst tengj­um við alla for­mennsku­áætlun okk­ar við heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna – og þannig við um­hverf­is­mál­in.

Við erum ein­fald­lega kom­in á þann stað að allt sem við ger­um, þar með talið sjálf­bærni mat­væla, þarf að þjóna því mark­miði að tryggja sjálf­bærni og stemma stigu við lofts­lags­breyt­ing­um. Margt smátt ger­ir eitt stórt, og for­mennsku­verk­efn­in eru hluti af því.

En fyrst og fremst vilj­um við koma með já­kvæða orku og nýj­ar hug­mynd­ir inn í nor­rænt sam­starf á næsta ári, vera traust og ábyggi­legt for­mennsku­ríki og tryggja að nor­rænt sam­starf sé áfram kraft­mikið og ár­ang­urs­ríkt í okk­ar allra þágu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra og sam­starfs­ráðherra Norður­landa.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. október 2018.