Categories
Fréttir

„Við erum með gott fjárlagafrumvarp“

Deila grein

23/11/2018

„Við erum með gott fjárlagafrumvarp“

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, mælti fyrir nefndaráliti meiri hlutans í annari umferð um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.
Willum Þór fór yfir að áhrif breytingartillagna, milli fyrstu og annarar umræðu, séu að nettóbreytingin á tekjuhlið sé hækkun tekna um 364,2 milljónir og nettóbreytingin á gjaldahlið til aukningar um 396,4 milljónir. Eftir sem áður er áætlað að afgangur verði 1% af vergri landsframleiðslu eins og lagt er upp með í fjármálastefnu og fjármálaáætlun.
Ríkissjóður hefur skilað afgangi á hverju ári frá og með árinu 2014 og einskiptis- og tímabundnar tekjur hafa verið nýttar til að greiða niður skuldir. „Á sex árum hefur tekist að lækka heildarskuldir ríkissjóðs úr 86% af vergri landsframleiðslu í 31% nú í árslok,“ sagði Willum Þór.

„Endurmat tekjuáætlunar frumvarpsins hefur tekið óverulegum breytingum frá uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 2. nóvember, tæpum 400 milljónum með frávikum í báðar áttir. Þar munar mest um lækkun virðisaukaskatts um 4 milljarða vegna minnkandi einkaneyslu og minnkandi eyðslu ferðamanna hérlendis sem hefur áhrif á hann. Á móti vegur 1,7 milljarða kr. hækkun tekjuskatts einstaklinga og 2,7 milljarða kr. tekjur af sölu losunarheimilda“, sagði Willum Þór.
Lagt er til að fjárheimildir aukist um 3,8 milljarða kr. vegna endurmats á launa-, gengis- og verðlagsforsendum frumvarpsins. Á móti vega endurmat og ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnar til lækkunar á ýmsum útgjaldaskuldbindingum sem leiða til 4,3 milljarða kr. lækkunar.
Willum Þór fór yfir að landsmenn verði að vera á vaktinni og að við þurfum að vanda okkur þegar kemur að efnahagsmálum og horfum í nýjustu efnahagsspá. „Það hefur hægst á í hagkerfinu en við erum með hagvöxt. Það er ánægjulegt að geta lagt til útgjaldaaukningu og innviðauppbyggingu á öllum málefnasviðum, til allt að því allra málefnaflokka, og standa við loforð um að fjárfesta í velferð, menntun, samgöngum og aðgerðum vegna loftslagsbreytinga og taka þátt í því verkefni jafn myndarlega og gert er. Þetta er ávísun á hagvöxt til framtíðar og uppbyggingu fyrir komandi kynslóðir“, sagði Willum Þór.