Categories
Greinar

Efling sveitarstjórnarstigsins

Deila grein

30/01/2019

Efling sveitarstjórnarstigsins

Ég átti fyr­ir skemmstu ánægju­leg­an fund með full­trú­um fjög­urra sveit­ar­fé­laga í Aust­ur-Húna­vatns­sýslu sem ræða nú sam­ein­ingu sveit­ar­fé­lag­anna. Þar var ég upp­lýst­ur um stöðu viðræðna og þá vinnu sem er í gangi við að greina áhrif­in ef af sam­ein­ingu yrði og þær áskor­an­ir sem tak­ast þyrfti á við í ná­inni framtíð. Íbúum sveit­ar­fé­lag­anna hef­ur fækkað á umliðnum árum, hefðbund­inn land­búnaður dreg­ist sam­an og at­vinnu­líf er frem­ur ein­hæft í sam­b­urði við aðra lands­hluta. Þá þarf að bæta sam­göng­ur inn­an héraðs, en al­mennt má segja að staða annarra innviða er góð.

Á fund­in­um var einnig rætt um þau fjöl­mörgu tæki­færi sem eru til staðar í héraðinu og að með sam­stilltu átaki heima­manna og stjórn­valda væri hægt að snúa þess­ari þróun við. Upp­bygg­ing gagna­vers á Blönduósi er nær­tæk­asta dæmið um það auk marg­vís­legr­ar upp­bygg­ing­ar sem átt hef­ur sér stað í tengsl­um við ferðaþjón­ustu.

Styrk­ur kem­ur með stærð

Það verður að sjálf­sögðu íbú­anna sjálfra að ákveða hvort af sam­ein­ingu sveit­ar­fé­lag­anna fjög­urra verður eða ekki. Það er sjálfsagt að sveit­ar­fé­lög­in taki sér góðan tíma til und­ir­bún­ings og kynn­ing­ar meðal íbúa.

Ég hef þá bjarg­föstu skoðun að al­mennt hafi stærri sveit­ar­fé­lög meiri burði til að sinna lög­bund­inni þjón­ustu við íbú­ana. Þau eru bet­ur í stakk búin til að tak­ast á við hvers kon­ar breyt­ing­ar í um­hverfi sínu, svo sem á sviði tækni og til að berj­ast fyr­ir mik­il­væg­um hags­muna­mál­um sveit­ar­fé­lags­ins. Mörg sveit­ar­fé­lög hér á landi eru ansi fá­menn og það er um­hugs­un­ar­efni. Verk­efn­is­stjórn um stöðu og framtíð ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, sem skilaði áliti sínu og til­lög­um árið 2017, taldi að of mik­ill tími og fjár­mun­ir færu í rekst­ur sveit­ar­fé­laga og of lítið væri af­lögu til stefnu­mót­un­ar og til að móta framtíðar­sýn fyr­ir sveit­ar­fé­lög­in. Nú­ver­andi sveit­ar­stjórn­ar­skip­an væri að hluta til haldið við með sam­starfi á milli sveit­ar­fé­laga og byggðasam­lög­um.

Stefnu­mót­un fyr­ir sveit­ar­stjórn­arstigið

Ég hef ný­lega skipað starfs­hóp sem hef­ur það hlut­verk að vinna stefnu­mót­andi áætl­un um mál­efni sveit­ar­fé­laga, sem meðal ann­ars er ætlað að sam­ræma stefnu­mót­un rík­is og sveit­ar­fé­laga með heild­ar­hags­muni sveit­ar­stjórn­arstigs­ins að leiðarljósi. Stefnu­mót­un rík­is­ins á þessu sviði er ný­mæli og fel­ur í sér gerð lang­tíma­áætl­un­ar í takt við aðra stefnu­mót­un og áætlana­gerð á verksviði sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­is, þ.e. sam­göngu­áætlun, fjar­skipta­áætl­un og byggðaáætl­un og sókn­aráætlan­ir.

Vinn­an hefst form­lega í þess­ari viku þegar starfs­hóp­ur­inn kem­ur sam­an í fyrsta skipti. Meðal þátta sem stefnu­mót­un­in mun taka til er stærð og geta sveit­ar­fé­lag­anna til að rísa und­ir lög­bund­inni þjón­ustu og vera öfl­ug­ur mál­svari íbúa sinna. Þá hef ég áður lýst yfir að stór­auka þurfi fjár­hags­leg­an stuðning Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­laga við sam­ein­ing­ar. Mik­il­vægt er að nýsam­einuð sveit­ar­fé­lög hafi gott fjár­hags­legt svig­rúm til að vinna að nauðsyn­legri end­ur­skipu­lagn­ingu á stjórn­sýslu og þjón­ustu í sam­ræmi við for­send­ur sam­ein­ing­ar og hafi svig­rúm til að styðja við ný­sköp­un. Þá er mik­il­vægt að svig­rúm sé til lækk­un­ar skulda í kjöl­far sam­ein­ing­ar, þar sem það á við.

Samstaða um framtíðina

Ég bind mikl­ar von­ir við starfs­hóp­inn og þá vinnu sem framund­an er, sem meðal ann­ars fel­ur í sér víðtækt og gott sam­ráð um allt land. Það er mín von og trú að afurðin verði áætl­un sem samstaða er um og stuðli mark­visst að efl­ingu sveit­ar­fé­lag­anna á Íslandi til hags­bóta fyr­ir íbúa þeirra og landið allt.

Þar sem til­efni grein­ar­inn­ar var ánægju­leg heim­sókn sveit­ar­stjórn­ar­manna úr Aust­ur-Húna­vatns­sýslu er að lok­um gam­an að segja frá því að formaður starfs­hóps­ins er Aust­ur-Hún­vetn­ing­ur­inn Val­g­arður Hilm­ars­son, fyrr­ver­andi odd­viti og sveit­ar­stjórn­ar­maður á Blönduósi til langs tíma og nú síðast bæj­ar­stjóri á Blönduósi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar 2019.