Nú hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birt drög að frumvarpi til að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins um innflutningstakmarkanir á fersku kjöti til landsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir heimildum til innflutnings á hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneiddum eggjum. Frumvarpið hefur hvorki verið lagt fyrir ríkisstjórn eða stjórnarflokka. Það er enn í vinnslu hjá ráðuneyti en opnað hefur verið á samráð um frumvarpið í gegnum samráðsgátt stjórnvalda.
Samhliða hafa stjórnvöld nú kynnt aðgerðaáætlun sína sem ætlað er að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Mótvægisaðgerðirnar eru allar þýðingarmiklar og eiga fullan rétt á sér óháð breytingum á lögum. Eigi þessar aðgerðir hins vegar að skila árangri verður að gefast lengri tíma en nokkrir mánuðir til að innleiða þær.
Hvað er í matnum?
Með samþykkt frumvarpsins erum við sem sjálfstæð þjóð að gefast upp með því að leyfa frjálsan innflutning á hráu kjöt. Það er ekki útséð um hvaða afleiðingar það mun hafa í för með sér. Þeir sem hafa talað fyrir óheftum innflutningi á kjöti benda á að það geti skilað sér í lægra matvöruverð. Hagsmunir neytenda snúast ekki bara um hvað sé í matinn og hvað hann kosti heldur hvað er í matnum.
Við megum ekki gefast upp þótt ESB hrópi. Við þurfum að halda uppi þeim einstöku vörum sem framleiddar eru hér á landi fyrir sérstöðu okkar. Sérstæða landsins byggir m.a. á hreinleika búfjárstofna okkar sem okkur hefur tekist að halda í vegna legu landsins. Við þurfum að verjast þeirri ógn sem blasir við vegna hugsanlegs sýklalyfjaónæmis. Frumvarpið tekur ekki nægilega á þeim þáttum. Þessir hagsmunir eru okkur jafn dýrmætir og hreinleiki lofts og vatns.
Stjórnmálamenn eigi samtal við stjórnmálamenn
Þetta er stórt pólitískt mál og miklir hagsmunir í húfi. Því þurfa íslenskir ráðmenn að stíga fast til jarðar og eiga samtal við þá sem stýra Evrópusambandinu. Dómur EFTA er unnin út frá lögum og reglum og niðurstaðan fenginn frá þeim sem vinna samkvæmt þeim. En þá liggur beinast við að stíga næsta skref og ná samkomulagi um undanþágu. Fá það viðurkennt að við þurfum tíma til aðlögunar og byggja upp raunverulegar varnir. Það þarf að fara í áhættugreiningar til að meta hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir Ísland. Það getur ekki verið vilji Evrópusambandsbúa að við verðum gerð að tilraunadýrum í þessum efnum.
Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis
Greinin birtist fyrst á feykir.is 1. mars 2019.