Categories
Fréttir

Hvar er loðnan?

Deila grein

01/03/2019

Hvar er loðnan?

„Virðulegi forseti. Hvar er loðnan? er spurning sem margir spyrja sig þessa dagana. Þrátt fyrir að Hafró og sjávarútvegsfyrirtækin séu búnin að leita um allan sjó finnst hún ekki, enda alltaf verið duttlungafullur fiskur. Hegðunin verður samt stöðugt undarlegri með hlýnandi sjó,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í gær.
Ræða Líneikar Önnur Sævarsdóttur, alþingismanns, í störfum þingsins 28. febrúar 2019.

„Þótt tíminn til veiða sé að renna út er mikilvægt að halda vöktun áfram næstu vikur og stunda markvissar rannsóknir til framtíðar. Áhrifin af loðnubresti á uppsjávarfyrirtækin eru gífurleg en ekki síður á fjölda fyrirtækja um land allt sem þjónusta þau, svo sem við landanir og flutninga. Þar fyrir utan munu einstaklingar og heimili tapa mikilvægum tekjum. Sveitarfélagið þar sem áhrifin eru hvað mest í krónum talið er sennilega Fjarðabyggð en áhrifin geta verið hlutfallslega meiri á minni sveitarfélög þar sem þol fyrir sveiflum er minna, svo sem á Langanesbyggð, Vopnafjörð og Hornafjörð.
Sveitarfélög eru þegar farin að huga að endurskoðun fjárhagsáætlana og meta fjárhagsleg áhrif af loðnubresti á bæjarsjóði og hafnarsjóði. Áhrifin á ríkissjóð eru einnig mikil en útflutningsverðmæti loðnu námu tæplega 18 milljörðum á árinu 2018, 0,6% af landsframleiðslu. Verðmæti síðustu ár hafa verið á bilinu 15–30 milljarðar, tæp10% af útflutningsverðmæti sjávarafurða, oft næstmest á eftir þorskinum.
Ef svo fer sem horfir verður árið 2019 fyrsta árið frá því að loðnuveiðar hófust að marki hér 1963 sem engin loðna veiðist. Á sama tíma er áhyggjuefni að ekki liggur fyrir fiskveiðisamningur við Færeyinga og því eru engir samningar í gildi um kolmunnaveiðar í færeyskri lögsögu, sem aftur bitnar á sömu fyrirtækjum og sveitarfélögum. Ég vil því hvetja hæstv. ríkisstjórn og einkum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til dáða í samningum við Færeyinga.“