Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fór yfir í ræðu á Alþingi í gær viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.
Að mínu mati er þrennt sem við þurfum að fjalla um. Það er í fyrsta lagi hreinlega réttaröryggi á Íslandi. Í öðru lagi hvort óska eigi eftir því að málið verði tekið til endurskoðunar af hálfu yfirdeildar dómstólsins og í þriðja lagi sú aðferðafræði sem notuð var við val á dómurum. Í framsögu minni mun ég einblína á það sem ég tel að sé brýnast, þ.e. ákvörðun stjórnvalda um að beina málinu til yfirdeildar dómstólsins.
Í mínum huga er afar mikilvægt að við náum að skapa sátt um það hvernig þingheimur, stjórnsýslan og dómstólar vinna úr þessu máli. Við erum öll í þjónustu við almenning og fólkið í landinu verður að geta treyst því að dómskerfið sé traust og öll umgjörð í kringum það. Eins og ég nefndi áðan er það næsta skref að stjórnvöld meti hvort óska eigi eftir því að málið verði tekið til endurskoðunar af hálfu yfirdeildar dómstólsins. Aðilar máls hafa þrjá mánuði til að taka slíka ákvörðun. Mikilvægt er, að mínu mati, að gera ítarlegt mat á þeim hagsmunum sem mæla með því að skjóta málinu til efri deildar og að þeir verði vegnir gegn hagsmunum sem kunna hugsanlega að mæla með því að það verði látið ógert.“
Ræða Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi 18. mars 2019.
„Eins og fram hefur komið hafa stjórnvöld kallað færustu sérfræðinga til ráðgjafar. Brýnt er að allt ferlið í kringum þetta mál sé vandað og til þess fallið að mynda traust. Við getum það í sameiningu fyrir samfélagið. Hins vegar er ekki hægt að taka ákvörðun um málskot án þess að vega og meta áhrifin af því á stöðu Landsréttar og tryggja eðlilegt umhverfi dómstólsins óháð því hvaða ákvörðun verður tekin. Í mínum huga er afar brýnt að Alþingi taki höndum saman í því mikilvæga málefni til að styrkja stoðir réttarkerfisins á Íslandi.
Á sínum tíma var tekin ákvörðun á þingi um það hvernig við færum yfir málið. Framsóknarflokkurinn óskaði eftir meiri tíma til að fara yfir málið vegna þess að það var unnið nokkuð hratt. Við erum að tala um dómstig í landi okkar. Því verðum við núna að bera gæfu til þess að taka höndum saman og vinna í sátt og samvinnu. Fólkið í landinu á það skilið.
Ég hef reyndar fulla trú á því að þingið nái að vinna þannig úr málinu. Það er alveg ljóst að mælingar á trausti til þingsins eru ekki eins og þær ættu að vera og við verðum öll að taka á málinu með þeim hætti að við náum að auka traust á Alþingi Íslendinga. Þetta er mjög gott mál, tel ég, til að vinna að í sameiningu og samvinnu. Hlustum hvert á annað, hvað við erum að segja hér. Þessar umræður, sem eru að beiðni stjórnarandstöðunnar, eru mikilvægar og við eigum að nýta þær. Við eigum að nýta það sem kemur fram í máli þeirra þingmanna sem taka til máls.
Virðulegur forseti. Það kann að vera að mörgum hafi brugðið við þessa niðurstöðu. Hins vegar skiptir það engu máli akkúrat núna. Við verðum að vinna hagsmunamat fyrir Ísland og taka svo ákvörðun í kjölfarið, vega og meta kosti og ókosti. Framsóknarflokkurinn leggur gríðarlega mikla áherslu á að þetta mál sé unnið í samvinnu við allt þingið, að algjört gagnsæi sé í öllum vinnubrögðum. Það er nákvæmlega það sem hefur komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra. Ég tel að sá málflutningur sem við heyrðum í framsögu hennar sé mikilvægur. Til þess að auka traust á Alþingi verðum við í sameiningu og samvinnu að ná utan um þetta mál og sýna þjóðinni að Alþingi geti tekið á máli af því tagi af fagmennsku og trúmennsku,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Categories
„Að algjört gagnsæi sé í öllum vinnubrögðum“
19/03/2019
„Að algjört gagnsæi sé í öllum vinnubrögðum“