Categories
Fréttir

Tap ríkissjóðs gæti numið 4-5 milljörðum kr.

Deila grein

20/03/2019

Tap ríkissjóðs gæti numið 4-5 milljörðum kr.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, gerði loðnubrest og samning við Færeyinga að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær. Áður hefur Líneik Anna gert loðnubrest að umtalsefni í störfum þingsins þann 28. febrúar sl.
Loðnubrestur hefur víðtæk áhrif í íslensku samfélagi. „Bein áhrif eru á uppsjávarfyrirtækin sem og fjölda fyrirtækja um land allt sem þjónusta þau, m.a. við landanir og flutninga. Þar fyrir utan tapa einstaklingar og heimili mikilvægum tekjum. Þá verða einstök sveitarfélög og ríkissjóður fyrir miklu tapi og gæti tap ríkissjóðs numið 4-5 milljörðum kr.,“ sagði Líneik Anna.
„Sveitarfélagið þar sem áhrifin eru hvað mest í krónum talið er Fjarðabyggð. Áætlað er að sveitarsjóður og hafnarsjóður Fjarðabyggðar verði samanlagt af 260 millj. kr. en áhrifin geta verið hlutfallslega meiri í ýmsum minni sveitarfélögum þar sem þol fyrir sveiflum er minna. Þegar þessar tekjur vantar þýðir það að laun starfsmanna í sjávarútvegi í Fjarðabyggð lækka um 13% og tekjur íbúa sveitarfélagsins að meðaltali um 5% eða alls um 1,2 milljarða kr. Þá er velta fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn talin lækka um 600 milljónir,“ sagði Líneik Anna.
„Í þessari stöðu er það sérstakt fagnaðarefni að nú liggur fyrir nýtt fiskveiðisamkomulag við Færeyjar, en síðustu vikur hefur þurft að sækja kolmunna um langan veg eða á alþjóðlegt hafsvæði við Írland.
Ég spyr því: Hvað felst í samkomulaginu við Færeyinga? Má vænta samfellu í samningum við Færeyinga næstu árin? Eru einhverjar breytingar frá síðasta samningi frá árinu 2018? Hafa einhverjar viðbótarrannsóknir verið skipulagðar á loðnustofninum á þessu ári umfram það sem hefðbundið er?
Að lokum: Eru einhver tækifæri til að bregðast við tekjutapi samfélaga vegna loðnubrests, t.d. með aukningu í aflaheimildum í öðrum tegundum eða með því að sækja hráefni með einum eða öðrum hætti út fyrir íslensku lögsöguna?“
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði það „alveg rétt að þetta mun hafa töluvert mikil áhrif á þau sveitarfélög, fyrirtæki, einstaklinga og fjölskyldur sem tengjast uppsjávarútgerð í landinu, það er óumdeilt, og sömuleiðis á sveitarsjóði og ríkissjóð.“
„Samkomulagið við Færeyjar er gott og hér er spurt hvort vænta megi meiri samfellu. Já, þetta er tímamótasamkomulag að því leyti að hingað til hafa einungis verið gerðir árssamningar, en nú höfum við gert samkomulag til tveggja ára, sem gerir skipulagningu betri og meiri.“